Danska brugghúsið Nørrebro Bryghus notaði 50 þúsund lítra af þvagi sem safnað var saman á Hróarskelduhátíðinni 2015 til að brugga nýjasta bjórinn sinn. Bjórinn hefur hlotið hið mjög svo viðeigandi nafn Pisner.
Þess má geta að bjórinn sjálfur inniheldur ekkert þvag heldur er það notað sem áburður á maltaða byggið sem hann er bruggaður úr en venjan er sú að nota ýmist lífrænan áburð úr dýrum eða tilbúinn áburð úr ýmsum misvistvænum efnum.
„Þegar fréttist að við værum byrjuð að brugga Pisner hélt fullt af fólki að við værum að sía þvagið og setja það beint í bjórinn. Við höfðum mjög gaman af þeim kenningum,“ sagði Henrik Vang, forstjóri Nørrebro Bryghus.“
Hugmyndin, sem er afar ný af nálinni, kom frá Landbúnaðar- og matvælaráði Danmerkur sem gaf fyrirbærinu nafnið “beercycling”.
„Ef bjórinn hefði bragðast bara örlítið eins og þvag hefði ég hent honum en maður tekur ekki eftir neinu slíku,“ sagði Anders Sjögren sem fór á Hróarskeldu árið 2015 og gæti því mögulega verið að drekka bjór sem hann sjálfur tók þátt í að framleiða.
Þeir 50 þúsund lítrar af þvagi sem safnað var saman á hátíðinni dugðu til að framleiða um 60 þúsund flöskur af Pisner-bjórnum.