„Ekki veruleg lækkun á verði heldur stórkostleg“

Hér má sjá verð á vinsælu kampavíni í Costco.
Hér má sjá verð á vinsælu kampavíni í Costco. mbl.is/

Arnar Sigurðsson, vínsali og innflytjandi hjá Sante Wines, segir að koma Costco muni hafa gífurleg áhrif á vínsölu hérlendis. „Hér er ekki um að ræða verulega lækkun á verði heldur stórkostlega. Sá veruleiki sem nú blasir við sýnir að viðskiptafrelsi hyglir mörgum á kostnað fárra en helsið hyglir fáum á kostnað margra,“ segir Arnar sem er ánægður með komu Costco þrátt fyrir að vera í sama bransa. Allir þeir sem eru með vínveitingaleyfi og fyrirtækjaaðild hjá Costco geta keypt áfengi í þar til gerðu afmörkuðu rými í versluninni.


Mikill verðmunur á heimsþekktu kampavíni

„Ljóst er að íslenskir neytendur hafa verið hafðir að féþúfu í gölnu kerfi milliliða og ríkissmásöluverslunar sem starfað hefur undir einokunarverslunarfyrirkomulagi. Ekki veit ég svo sem í hverju væntingar fólks hafa falist þar sem rekstur ÁTVR er annars vegar. Samfélagið rekur reyndar heila stofnun, Samkeppniseftirlit, til þess að fyrirbyggja fákeppni og einokunarverslun og ætti sú stofnun auðvitað að geta útskýrt af hverju slíkt fyrirkomulag hefur aldrei og mun aldrei verða neytendum hagfellt,“ segir Arnar sem sjálfur hefur rýnt í verðið hjá Costco. Sem dæmi má nefna að kampavínsflaska sem kostar 4.699 krónur með vsk. kostar rétt innan við 6.998 krónur hjá Vínbúðinni og svipað hjá innlendum heildsölum. Heildsölurnar bjóða þó ýmis kjör í formi heimkeyrslu, auglýsingastyrkja, hægt er að versla út á krít auk afsláttar upp á 15-30% samkvæmt heimildum Matarvefjarins. Þá eiga þó oft eftir að bætast við skattar og gjöld svo að sambærileg flaska til veitingahúss frá heildsölu gæti verið á um 5.500 krónur.

Costco framleiðir sitt eigið léttvín undir merkinu Kirkland sem er …
Costco framleiðir sitt eigið léttvín undir merkinu Kirkland sem er nokkuð lágt í verði og hefur selst vel erlendis. /mbl.is

„Birgjar munu lækka sig og aðrir líklega hætta sölu á þeim vörum þar sem Costco eða aðrir geta boðið betur. Á máli hagfræðinnar heitir þetta ferli „skapandi eyðilegging“, þ.e. að fyrirtæki sem ekki skapa verðmæti með sinni þjónustu einfaldlega hætta og starfsmenn fara yfir í þarfari störf. Minn innflutningur er reyndar að mestu í vínum sem Costco snertir lítið en þar fyrir utan hafa mín verð til veitingahúsa sem og til erlendra kaupenda verið á pari við eða lægri en þau sem Costco býður,“ segir Arnar Sigurðsson.


Undir kostnaðarverði

Egill Sigurðsson, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni, segir að staða Costco sé sterk enda sé verslunin einn stærsti kaupandi að áfengi í heiminum og því fái þeir góð kjör í innkaupum. „Í sumum tilfellum er verð þeirra undir kostnaðarverði okkar en í öðrum 5-10% ódýrari en okkar verð.  Líkt og við höfum gert í matvöru þá munum við freista þess að endursemja við okkar birgja og ná þannig niður verði á okkar vörum.  Á móti kemur að við bjóðum hátt þjónustustig, breitt og stöðugt vöruval og óttumst ekki samkeppnina.  Hún mun hins vegar eins og áður sagði brýna okkur til að ná hagstæðari innkaupsverðum, þar ætlum við ekki að láta okkar eftir liggja.  Heildsöluverð okkar eru þau sömu og útsöluverð í ÁTVR. Viðskiptavinir okkar fá margir afslátt frá því verði, greiðslukjör og ýmsa aðra þjónustu,“ segir Egill hjá Ölgerðinni svo ekki er ólíklegt að einhver verð hjá þeim muni lækka í kjölfar komu Costco.
Aðilar innan veitingahúsageirans segja að minni veitingahús séu líklegri til …
Aðilar innan veitingahúsageirans segja að minni veitingahús séu líklegri til að versla við Costco en þau stóru líklegri til að þurfa á þjónustunni að halda sem viðskiptasambandi við heildsölu fylgir. /mbl.is
Dæmi um verð á léttvíni í Costco hérlendis.
Dæmi um verð á léttvíni í Costco hérlendis. mbl.is/
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert