Hamfarakaka sem setti Vesturbæinn á hliðina

Kakan leit bara nokkuð vel út þegar búið var að …
Kakan leit bara nokkuð vel út þegar búið var að skreyta hana nógu mikið. ljósmynd/Þóra Sig

Það er fátt skemmtilegra en að baka fallega köku en það er ekki alltaf auðvelt. Þess vegna er til kökumix í pökkum og tilbúnir botnar út í búð. Það er gott að vita af slíku enda oftar en ekki sem neyðartilfelli koma upp (ef kaka fellur, misheppnast eða tíminn hleypur frá manni).

Matreiðslubækur geta líka hreinlega gefið upp rangar uppskriftir og þá eru góð ráð dýr en á dögunum bakaði undirrituð þessa ágætisköku. Uppskriftin er upp úr bók sem heitir Naked Cakes og er án efa ein fallegasta matreiðslubók sem sögur fara af. Bókin er í miklu uppáhaldi og er þetta í þriðja skiptið sem bakað er upp úr henni. Sá böggull hefur þó fylgt skammrifi að botnarnir lyftast illa enda gríðarlega smjörmiklir og þungir. Brugðið var á það ráð í fyrra þegar bakað var fyrir stórafmæli að baka bara fleiri botna til að ná góðri hæð á kökurnar. Fyrir vikið er enn þá verið að tala um kökurnar og hversu góðar og saðsamar þær voru.

Víkur þá sögunni af umræddri köku sem myndin hér að ofan er af.

Ljósmynd/Naked Cakes

Ákveðið var að baka vanillubotn upp úr bókinni og er uppskriftin svohljóðandi.

Vanillukaka úr Naked Cakes

  • 180 gr. all-purpose hveiti
  • 1/2 tsk. lyftiduft
  • 1/4 tsk. fínt salt
  • 125 gr. ósaltað smjör við stofuhita
  • 220 gr. caster sykur (mjög fínn sykur en ég notaði bara venjulegan)
  • 4 egg
  • 1/2 tsk. vanillu paste eða dropar
  • 125 ml mjólk

Aðferð:

  1. Hitið ofninn í 170 gráður og smyrjið 20 sm form.
  2. Sigtið hveitið, lyftiduftið og salt í stóra skál og blandið vel saman.
  3. Í hrærivél skulið þið hræra saman smjörið og sykur þar til blandan er orðin létt og loftkennd. Bætið þá við eggjarauðunum og hrærið vel. Bætið vanillunni við og blandið vel saman. Passið ykkur að skafa reglulega af hliðunum í skálinni til að allt blandist vel. Hafið hrærivélina stillta á hægan hraða og blandið hveitiblöndunni rólega saman við.
  4. Setjið eggjahvíturnar í skál og stífþeytið. Blandið því næst saman við deigið – mjög rólega. Notið til þess sleif og passið ykkur vel. Eggjahvíturnar eru til að gera kökuna léttari.
  5. Setjið deigið í formið og bakið í 20-30 mínútur eða þar til tannstöngull kemur hreinn upp úr kökunni eftir að hafa verið stungið í.
  6. Látið kökuna kólna áður en þið takið hana úr forminu.

Ég er búin að gera þetta nokkrum sinnum núna og þarf alltaf að baka umtalsvert lengur en sagt er til um í uppskriftinni auk þess sem botnarnir falla alltaf skelfilega hjá mér. Veit ekki af hverju en ég er búin að gabba atvinnubakara til að prófa uppskriftina sem mun gerast einhverntíman á næstu vikum.

Ljóst var á þessum tímapunkti að þrátt fyrir að ég hefði bakað tvöfalda uppskrift þá var þetta ansi þunnur þrettándi. Nú voru því góð ráð dýr og það skársta sem mér datt í hug var að kaupa svampbotna úti í búð til að bæta við.

Þá var komið að kreminu en planið var að gera sítrónusmjörkrem úr bókinni. Krem sem fær fullorðið fólk til að skæla af unaði.

Hér er uppskriftin:

Sítrónusmjörkrem úr Naked Cakes

  • 175 gr. ósaltað smjör við stofuhita
  • 270 gr. flórsykur
  • 120 gr. rjómaostur við stofuhita
  • 2 msk. ferskur sítrónusafi
  • 2 msk. nýrifinn sítrónubörkur

Aðferð:

  1. Setjið allt hráefnið í hrærivél og hrærið í 3-5 mínútur eða þar til kremið er orðið létt og loftmikið.

Hér er komið að mjög stóru og veigamiklu atriði sem undirrituð hafði ekki hugmynd um. Sýra splittar smjörfitu. Þetta er víst eitthvað sem allir kokkar vita en ekki ég þannig að þegar ég var að hræra kremið eftir leiðbeiningunum splittaði það ansi illa. Nú voru góð ráð dýr og mér datt ýmislegt í hug en það var misgáfulegt eins og gerist. Skársta hugmyndin sem ég fékk var að setja tvær eggjarauður út í kremið til að freista þess að binda fituna aftur. Kremið skánaði við það og síðan ákvað ég að hætta í bili (klukkan var að nálgast miðnætti). Morguninn eftir var kremið ögn skárra eftir nótt í kæli en fekar dapurt þó. Líklegasta skýringin var auðvitað sýran þannig að ég lagaði nýjan skammt af kremi sem var fullkominn – áður en ég setti sítrónusafann saman við en þá splittaði það aftur. Sökudólgurinn var því augljóslega fundinn þannig að ég set þann fyrirvara við uppskriftina. Það stendur ekkert um þetta í bókinni sem er skrítið. Kannski virkar betur að nota bara sítrónubörkinn en ég prófa það síðar.

Þar sem maður á ekki að henda neinu notaði ég eldri skammtinn á milli kökulaganna en ég notaði tvo svampbotna til að þykkja neðri hluta kökunnar. Síðan bjó ég til turninn eftir kúnstarinnar reglum. Ég stakk prjónum í til að halda henni og hjúpaði kökuna svo með nýja kreminu sem þó var frekar glatað (en skelfilega bragðgott).

Síðan var ekkert annað að gera en að skreyta kökuna með blómum úr garðinum og eins og sjá má var útkoman með skársta móti. Bragðgóð var hún engu að síður og uppskar ég mikið hrós fyrir viðleitinina. 

Eitt af meistaraverkunum úr bókinni. Ég hef reynt að baka …
Eitt af meistaraverkunum úr bókinni. Ég hef reynt að baka þessa og það tókst nokkuð vel. Ég mæli með að þið æfið ykkur samt áður en hún er frumsýnd í veislu þar sem hún er flókin í framkvæmd og krefst töluverðrar lagni. Ljósmynd/Naked Cakes
Svona leit kakan út þegar ég gerið hana. Nokkuð gott …
Svona leit kakan út þegar ég gerið hana. Nokkuð gott en þó ekki jafn glæsileg og fyrirmyndin. mbl.is/Þóra Sig
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka