Þessi sósa er ákaflega fersk og góð og hentar bæði með kjöti, fiski og grænmetisréttum. Mér finnst hún eiga sérstaklega vel með grilluðum mat. Ég nota bara það krydd sem ég á til hverju sinni eða sprettur í garðinum þá vikuna. Það má vel nota bara eina tegund af fersku kryddi t.d basilíku en grænkálið hef ég með fyrir heilsuna.
Sósan er í miklu uppáhaldi hjá vinkonum mínum og sambýlismaðurinn setur hana óumbeðinn út á nautakjötið án þess að minnast einu orði á rjómasósur!
1 bolli grænkál
1/2 bolli kóríander
1/2 bolli steinselja
Nokkur lauf sítrónumelissa – má sleppa
3 msk. ólífuolía
½ bolli appelsínusafi
2 hvítlauksrif
½ bolli grísk jógúrt
Salt
Pipar
Setjið allt nema jógúrtið, salt og pipar í blandara og blandið uns kekkjalaust. Hellið í skál og hrærið jógúrtinu saman við og saltið og piprið til eftir smekk.