Læknirinn í eldhúsinu segir fitu góða og jafnvel verndandi

Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítalans.
Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur á lyflækningadeild Landspítalans. MBL.IS/mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Ragnar Freyr Ingvason, betur þekktur sem matgæðingurinn Læknirinn í eldhúsinu, segir mettaða fitu vera skaðlausa í réttum magni en fólk ætti að að gæta sín á mikið unnum kolvetnum.

„Nýlega birtust niðurstöður PURE-rannsóknarinnar í Lancet og voru þær kynntar á Evrópuþingi hjartalækna sem haldið var í Barcelona á Spáni. Um er að ræða geysilega stóra og umfangsmikla faraldsfræðilega rannsókn með 135 þúsund þáttakendum sem spannar fimm heimsálfur,“ segir Ragnar sem kynnti sér málið ítarlega en Ragnar er meðal annars gigtarlæknir.

„Í þessari rannsókn var fólki á aldrinum 35-70 ára fylgt eftir í að meðaltali 7,4 ár og var fæðuinntaka þessara þátttakenda skráð með notkun á víðtækum spurningalista í upphafi rannsóknarinnar og svo handahófskennt úrval úr hverju landi eftir því sem leið á rannsóknina. Þessu fólki var svo fylgt eftir og öll dauðsföll skráð sem og sjúkdómar í hjarta og æðakerfi (hjartaáföll, heilaslag, hjartabilun) og einnig dauðsföll af öðrum orsökum en af völdum hjarta og æðasjúkdóma,“ segir Ragnar en niðurstöður rannsóknarinnar hafa vakið þó nokkra athygli þar sem þeir einstaklingar sem neyttu hvað mestra kolvetna samanborið við þá sem borðuðu minnst af kolvetnum voru í 28 % aukinni áhættu við að deyja.

„Þá vakti það enn þá meiri athygli að þeir sem borðuðu mest af fitu sbr. við þá sem borðuðu mest af henni voru 23% minni áhættu á því að deyja, og skipti þá engu hvaða fitur fólk var að láta í sig. Engin tengsl sáust á milli neyslu af fitu og tengsl við hjarta og æðasjúkdóma nema hvað mettuð fita virtist verndandi gegn heilaslagi. Vísindamennirnir nefndu sérstaklega að niðurstöður þeirra styðja það sem þegar er vitað – sem furðulegt nokk gengur í berhögg við mataræðisráðleggingar.“

Ragnar er vel þekktur matgæðingur og hefur gefið út matreiðslubækur og stýrt matreiðsluþáttum. Hann elskar smjör og rjóma og nota hráefnin ósjaldan. „Niðurstöður þessarar rannsóknar sannfæra mig enn frekar um að við þurfum ekki að hræðast mettaða fitu að neinu leyti. Við ættum þó að gæta okkur á kolvetnum – sérstaklega þeim sem eru mikið unnin, en það eru auðvitað engar nýjar fréttir. Það er mín skoðun að við eigum að borða alvöru mat, gerðan úr frábærum hráefnum – og njóta hans fram í fingurgóma.“ 

Ragnar Freyr heldur úti matarblogginu laeknirinníeldhusinu.com.
Ragnar Freyr heldur úti matarblogginu laeknirinníeldhusinu.com. mbl.is/Gott í matinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert