Reyna að hafa kampavín í öllum mat

Tobba og Þóra á rúgbrauðinu með gott í glasi og …
Tobba og Þóra á rúgbrauðinu með gott í glasi og glugga í bók. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hún svindlar, ég ekki,“ segir Tobba. „Ég kann að elda, en ég er alltaf svo upptekin að ég er alltaf með skítinn upp á bak. Þóra er í betra andlegu jafnvægi af því hún reynir að gera minna, og svo finnum við út úr þessu í sameiningu.“ Fyrsti þáttur í seríunni „Svindlað í saumaklúbb“ fer í loftið í fyrramálið.

Við erum að hugsa um að kalla okkur Frunsu og Flensu, af því Þóra er með frunsu núna og ég er komin með flensu, en við látum það ekki stoppa okkur í matargerðinni,“ segja þær Þorbjörg Marinósdóttir og Þóra Sigurðardóttir, en fyrsti þáttur þeirra í seríunni „Svindlað í saumaklúbb“ fer í loftið klukkan fimm í fyrramálið, föstudag, á matarvef Morgunblaðsins, mbl.is/matur.

„Í þessum þáttum kennum við fólki að redda sér á einfaldan og fljótlegan hátt þegar von er á gestum. Við nennum ekki að elda og notum því helst bara pakkamat og erum líka alltaf fullar að elda,“ segir Tobba og tekur fram að auðvitað sé í þáttunum viðhafður þó nokkur fíflagangur.

„Hugmyndin að þessum þáttum kviknaði þegar Tobbu vantaði ástæðu til að komast í hárgreiðslu, vera mikið og skringilega máluð, asnalega klædd og drekka vín um hábjartan dag í vinnunni,“ segir Þóra og bætir við að þær hafi einfaldlega langað til að gera eitthvað sem þeim sjálfum finnst gaman og skemmta öðrum í leiðinni.

Þetta er bannað innan 18 ára

Þóra og Tobba elda pakkamat og skemmta sér konunglega í …
Þóra og Tobba elda pakkamat og skemmta sér konunglega í þáttunum og skemmta öðrum í leiðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson


„Þetta snýst um að upphefja uppteknar konur og karla sem hafa engan tíma til að gera allt frá grunni, eins og krafan er í dag þegar kemur að matargerð, fólk er álitið aumingjar sem ekki gerir allt frá grunni. Við viljum að fólk geti gert eitthvað lekkert úr pakkamat, oft þarf ekki meira en ferskt krydd til að fela matinn, nú eða setja kampavín út í allt, en við gerðum það á tímabili og reyndist vel,“ segir Tobba og hlær og bætir við að í þeim þáttum hafi þær meðal annars gert kampavínssíróp og kampavínspönnukökur.

„Í einum þættinum vorum við með einvígi, þá vorum við hvor með sinn pakkann af vöffludeigi og gerðum mismunandi útgáfur af vöfflum. Ég var í sætu kampavínsdeildinni en Tobba gerði morgunmatarvöfflur með skinku og osti,“ segir Þóra.

„Við reynum að setja vín í sem flest sem við gerum, við settum til dæmis Bailey's í staðinn fyrir vatn í súkkulaðiköku og svo drekkum við líka vínið á meðan við eldum,“ segja þær og skellihlæja. „Enda eru þessir þættir bannaðir innan 18 ára.“

Þóra kann ekki að elda

„Við lumum á ýmsu þegar kemur að því að svindla í matargerð, ég kann til dæmis ekki að elda til að bjarga lífi mínu,“ segir Þóra. „Hún svindlar, ég ekki,“ segir Tobba. „Ég kann að elda, en ég er alltaf svo upptekin að ég er alltaf með skítinn upp á bak. Þóra er í betra andlegu jafnvægi af því hún reynir að gera minna, og svo finnum við út úr þessu í sameiningu.“

Þær segjast líka hafa lært af Nigellu að lýsa matnum nógu fjálglega, það skipti máli. „Við kennum fólki til dæmis að búa til balískan grýturétt, rosagóðan. Pakkamatur þarf ekki að vera viðbjóður, eins og margir halda, þar er líka hægt að velja glúteinlaust og alls konar sem fólk sækist eftir. Pakkamatur í dag er ekki eins og hann var fyrir tuttugu árum,“ segir Tobba og Þóra bætir við: „Í þessum þáttum sýnum við fólki hvernig hægt er að taka pakkamat upp á hærra plan með einföldum aðferðum.“

Uppreisn hinna uppteknu

„Það nenna ekkert allir að hafa hátt flækjustig í matargerð, ég sé það best þegar ég skoða hvað er mest lesið á matarvefnum mínum. Venjulegur fljótlegur matur sem fólk þarf ekki að vera með í maganum yfir að bjóða upp á, það er langvinsælast á matarvefnum. Ef það eru fleiri en tíu atriði í innihaldslýsingunni flýgur það ekki. Og ef það þarf sérstakan hrísgrjónapott þá er enginn að skoða það. Venjulegt fólk vill ekkert svona vesen dagsdaglega, en auðvitað vill það frekar hafa fyrir matnum þegar eitthvað sérstakt stendur til,“ segir Tobba og bætir við að auðvitað verði flóknari matargerð í bland við einfalda hluti áfram á matarvefnum hennar.

„En þættirnir okkar um svindl í saumaklúbb snúast um uppreisn hinnar uppteknu húsmóður og húsföður.“

Prjónaðar borðtuskur ömmu

Þar sem útlit Tobbu og Þóru í þáttunum vísar í gamlan tíma fékk Tobba ýmislegt lánað hjá ömmu sinni. „Þetta var gullið tækifæri til að nota sparistellið hennar ömmu, borðtuskurnar sem hún prjónaði, svunturnar hennar og drekka Mateus-rósavín eins og mamma gerði.“ Þær Tobba og Þóra fengu líka lánaða gamla græna bifreið í sumar hjá pabba Tobbu, svokallað rúgbrauð, til að tóna við hárgreiðslurnar og fötin.

„Við tókum upp kynningu þar sem við mættum í vinnuna á rúgbrauðinu með allan pakkamatinn sem við ætluðum að elda úr. Það komu upp hugmyndir um að rúnta í kringum landið næsta sumar á rúgbrauðinu og elda, sem væri ekkert mál því það er eldhús í þessum bíl,“ segir Tobba.

Þættirnir Svindlað í saumaklúbb eru fjórir og verður einn sýndur í hverri viku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert