Matarævintýri í ítalskri sveit

Stefania Torri er hér fyrir miðju.
Stefania Torri er hér fyrir miðju. Ásdís Ásgeirsdóttir

Lengst uppi í Appenínafjöllum Ítalíu í Emilia Romagna-héraði er hægt að læra handtökin í eldhúsinu hjá henni Stefaniu Torri. Þangað lá leiðin hjá mæðgum sem allar hafa brennandi áhuga á matreiðslu. Með útsýni yfir dali og fjöll voru galdraðir fram ljúffengir en jafnframt auðveldir klassískir ítalskir réttir.

Það lá mikil eftirvænting í loftinu þegar keyrt var frá flugvellinum í Mílanó áleiðis upp í Appenínafjöllin einn fagran haustdag í september. Í bílnum var ættmóðirin Ragnhildur Benediktsdóttir ásamt dætrunum þremur, Hildi, Margréti og Ásdísi, sem hér ritar. Hlykkjóttir vegir lágu um skógivaxnar hlíðarnar og loks blasti við skiltið á áfangastaðnum, Borgo Pianello. Þar hugðumst við mæðgur eyða saman viku í fallegu umhverfi, læra að elda ítalskan mat, skoða okkur um í héraðinu, skemmta okkur og fræðast. Það sem við myndum kalla fullkomið frí!

Við fengum hús út af fyrir okkar, þrjú hundruð ára gamalt steinhús með öllum þeim sjarma sem því fylgir. Sundlaug var bak við hús með útsýni yfir fjöllin og í fjarska blasti við gamall kirkjuturn. Þegar kvöldsólin lagðist yfir dali og fjöll varð umhverfið hreinlega ævintýralegt.

Pasta frá blautu barnsbeini

Kokkanámskeiðið var fyrstu þrjá dagana í fallegu húsi á landareigninni en hjónin Marco Ventura og Stefania Torri ráða þar ríkjum. Stefania sér um kennsluna og hefur gert frá árinu 2006.

„Ég er ekki lærður kokkur en hef unnið í eldhúsi alla tíð og er sérfræðingur í handgerðu pasta en það er einkennandi fyrir Bologna sem er hér næsta stóra borgin. Ég lærði það sem smábarn,“ segir hún og hlær. „Ég kenni það líka en við höfum mismunandi námskeið því sumir kúnnarnir vilja koma aftur og geta þá lært eitthvað nýtt. Fólk vill læra eitthvað sem er einkennandi fyrir Ítalíu og þess vegna kennum við t.d. að gera pítsu en í þessu héraði er pasta aðalatriðið,“ segir Stefania og bætir við að flest námskeiðin séu þriggja daga löng. „Svo getum við auðvitað sérsniðið námskeið fyrir hópa sem það vilja.“

Námskeiðin eru flest haldin á vorin og haustin því hitinn er of mikill yfir hásumarið, að sögn Stefaniu. „Það er mjög erfitt að vera með heitan pítsuofn í gangi yfir hásumar!“

Aðspurð hvort hún borði pasta á hverjum degi, svarar hún hlæjandi: „Nei, alls ekki, ég þarf að hugsa um heilsuna. En flestar ítalskar fjölskyldur borða pasta daglega. Að minnsta kosti helmingur!“

Eldað og borðað í þrjá daga

Á námskeiðinu sem við vorum lentar á var lögð áhersla á grænmeti, pasta og pítsugerð. Hráefnið var dásamlega brakandi ferskt og réttirnir allir í raun sáraeinfaldir. Um fimmtán voru mættir til að læra handtökin en námskeiðið hófst hálfellefu á morgnana með ljúffengu kaffi og sætmeti. Allt var í rólegheitum hjá henni Stefaniu og nógur tími til alls. Gestir fengu allir hvítar svuntur og svo var hafist handa.

Á þriggja daga námskeiði útbjuggum við ítalska brauðsúpu, heimalagað pestó, eggaldinrétt, biscotti-kökur, tíramísu, grænmetiskássu, pasta með tómötum, fylltan kúrbít og eldbakaða pítsu. Og að sjálfsögðu var setið fram á eftirmiðdag því það þurfti að borða öll herlegheitin!

Á eftir var notalegt að setjast út við sundlaug með góða bók og ilmandi kaffi og njóta sveitasælunnar. Á kvöldin var svo hægt að heimsækja lítil þorp í nágrenninu og finna sér veitingastaði til að halda áfram að njóta ítalskrar matargerðar.

Í héraðinu er að finna alvöru parmesangerðir og balsamik-búgarða og auk þess er stutt til bæði Bologna og Modena, borga þekktra fyrir framúrskarandi mat. Héraðið er því sannkölluð matarkista Ítalíu!

Hægt er að fræðast um þetta námskeið og önnur á cooking-vacations.com og einnig beint á vefsíðunni borgopianello.eu.

Ásdís Ásgeirsdóttir
Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert