Algengustu mistökin í meðferð stofuplantna

Ólöf garðyrkjufræðingur með stofuplöntur í baksýn.
Ólöf garðyrkjufræðingur með stofuplöntur í baksýn. Kristinn Magnússon

Ólöf Á. Erlingsdóttir, garðyrkjufræðingur og blómaskreytir, er alin upp í garðyrkjustöð hjá foreldrum sínum Erlingi Ólafssyni og Helgu Kristjánsdóttur í Mosfellsdal. Ólöf hefur unnið í Garðheimum í 14 ár og er hafsjór af þekkingu. Við fengum hana því til að gefa nokkur góð ráð varðandi plöntur.

„Margir koma til mín og segjast ekki vera með græna fingur og þora því ekki að kaupa sér plöntu. Það er erfitt að halda plöntum fallegum, stofan hjá okkur er ekki rétta umhverfið fyrir flestar plöntur en við reynum okkar besta og ef illa fer þá er bara að fá sér nýja, prófa sig áfram með mismunandi plöntugerðir og sjá hvað hentar þér best,“ segir Ólöf en pottaplöntur er afskaplega vinsælar um þessar mundir.

Hvaða plöntur eru vinsælastar núna?
Það má segja að allar plöntur eru vinsælar í dag. En þó eru þykkblöðungar, kaktusar, rifblaðkan/monstera, indíánafjöður, burknar og gúmmítré mjög vinsæl. Einnig eru hengiplöntur eins og rósahjarta, perluband og bergflétta framarlega.“

Hver eru algengustu mistökin í meðferð stofuplantna?
Helstu mistökin eru líklega tengd vökvun, hvort heldur sem er of mikil eða of lítil.    

Algengasta spurningin sem ég fæ er hversu oft á ég að vökva? Það sem hefur áhrif er staðsetning og plöntugerð. Birta og hiti stýra því hversu oft við þurfum að vökva. Planta sem stendur í suðurglugga með ofn fyrir neðan sig þarf meira vatn en sú sem er innar í íbúð.

Plöntur eru að sjálfsögðu mismunandi, þ.e. þykkblöðungar eru með mikinn vatnsforða og þola því minni vökvun á meðan fíkus er með fullt af fíngerðari blöðum og þolir illa þurrk. 

Best er að þreifa á moldinni og finna rakann eða nota rakamæli. Moldin er oft þurr í efsta lagi en rennandi blaut neðst í potti. Ef þú ert í vafa þá er oft betra að bíða með vökvun. 

Það má einnig geta þess að núna er jólastjarnan í fullum blóma og um að gera að njóta hennar á aðventunni. Hún þolir illa að þorna og vill ekki standa í vatni. Þolir sól á veturna en er illa vil kulda og trekk,“ segir Ólöf með sína grænu fingur og bjarta bros.

Þykkblöðungar á borð við indíánafjöður þurfa minni vökvun en blómstrandi …
Þykkblöðungar á borð við indíánafjöður þurfa minni vökvun en blómstrandi plöntur eða plöntur í suðurglugga. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert