Albert Eiríksson klikkar ekki á aðalatriðunum og hvað þá sjálfum möndlugrautnum. Hér kennir hann lesendum réttu handtökin en aðferðina segir hann skothelda.
„Í mínu ungdæmi var möndlugrauturinn í hádeginu á aðfangadag, sem er fínn tími. Allir taka hraustlega til matar síns og klára örugglega af diskunum í von um að finna möndluna. Síðan er fólk ekki orðið svangt aftur fyrr en verður heilagt.
Möndlugjöfin. Það er ágæt þumalputtaregla að hugsa möndlugjöfina þannig að sá sem hana fær deili gjöfinni með öllum strax að lokinni máltíð.
Aðferðirnar við að elda góðan graut eru margar og engin ein réttust. Þessa aðferð má rekja til Þýskalands. Hún er sú að setja allt í pott, láta suðuna koma upp á lágum hita á 45-60 mínútur. Þá er slökkt undir, potturinn einangraður mjög vel með handklæðum, svuntum eða öðru og hann látinn standa þannig í að minnsta kosti þrjár klukkustundir (moðsuða). Rétt áður en grauturinn er borinn á borð er hrært í. Það er lítil hætta á að grauturinn brenni við, það þarf ekki að standa yfir honum og hræra stöðugt í. Síðast en ekki síst þarf mun minna af grjónum – aðeins einn desílítra á móti lítra af mjólk. Athugið að ekki þarf að sjóða grjónin fyrst í vatni áður en mjólkin fer saman við.
Ég hvet ykkur til að prófa þessa aðferð við möndlugrautinn og næst þegar þið eldið hrísgrjónagraut.“
Möndlugrauturinn
Setjið allt í sæmilega stóran pott. Látið suðuna koma upp á mjög lágum hita (á 45-60 mín), hrærið við og við í á meðan. Slökkvið undir pottinum þegar suðan er komin upp, einangrið pottinn mjög vel t.d. með handklæðum og látið standa þannig í að minnsta kosti þrjár klukkustundir.
Eftir þrjár klukkustundir er grauturinn tilbúinn, silkimjúkur og fínn.