Breski kokkurinn Jamie Oliver var nýverið spurður hvort til stæði að hann eldaði fyrir forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, á næstunni.
Oliver sagði það ekki á dagskrá og reyndar forðaðist hann Bandaríkinn eins og heitan eldinn til að koma í veg fyrir að það myndi gerast.
Aðspurður hvað hann myndi elda ef til þess kæmi svaraði Oliver því til að hann myndi bíta á jaxlinn og vera ekkert nema fagmennskan uppmáluð, sagði hann í viðtali við The Russell Howard Hour, en bætti svo við:
„Ég myndi nýta alla mína þjálfun sem næringarfræðingur til að elda eitthvað sérlega hægðalosandi.“
Eftir að hann hafði sagt þetta dró hann hlæjandi í land og sagði að þetta hefðu verið ósjálfráð viðbrögð og ef hann hefði val myndi hann ekki taka í mál að elda fyrir forsetann.