„Tímabilið sem selja má jólabjór hefur verið skilgreint í reglugerð þannig að það má selja hann út vikuna. Við höfum nú samt leyft honum að vera aðeins lengur í sölu,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri Vínbúðarinnar, Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR).
Hún telur ástæðuna fyrir reglunum vera að eftirspurnin minnki verulega eftir hátíðirnar. Tímabilið hafi verið skilgreint með þessum hætti en þau hafi þó ekki innkallað jólabjórinn. „Síðan tekur þorrabjórinn við og páskabjórinn eftir það.“ Hún segir að nokkrir birgjar hafi tilkynnt verðlækkun um áramótin og muni 20 vörunúmer lækka í verði. Jólabjórinn verði til sölu í Vínbúðum ÁTVR út janúar eða eins og birgðir endast. Sala á jólabjór frá 15. nóvember til 31. desember hafi verið 741 þúsund lítrar, sem er um tvö þúsund lítrum minna en í fyrra. Mest seldu tegundirnar voru Tuborg Julebryg, Víking- og Thule-jólabjór, Jólagull og Jólakaldi.
„Reglurnar í ÁTVR eru þannig að árstíðabundnar vörur eins og jólabjór eru einungis til sölu í ákveðinn tíma og eftir þann tíma dettur bjórinn úr sölu í öllum vínbúðum. Þá er óseldur bjór sendur aftur til birgja og honum fargað,“ segir Hilmar Geirsson, vörumerkjastjóri Víking brugghúss.
„Jólabjórinn sem við erum með í sölu í ÁTVR er á þessum tímapunkti í mjög góðu ástandi og um fullgóðan bjór að ræða sem rennur ekki út fyrr en næsta haust. Til að koma í veg fyrir þessa sóun á matvælum og í leiðinni koma til móts við neytandann höfum við ákveðið að lækka verðið á jólabjór frá okkur í ÁTVR þar til hann dettur úr sölu eða klárast. Verðlækkun fer eftir tegundum en er á bilinu 20%-30% af útsöluverði ÁTVR og því um töluverða lækkun að ræða. Vonandi verður þetta til þess að neytendur sjái sér hag í því að drekka jólabjór aðeins lengur og minnka þannig í leiðinni magnið af bjór sem þarf að farga.“