„Borgara brjálæði“ í Frakklandi

Ekki er víst að frönsku hamborgararnir líti svona út, en …
Ekki er víst að frönsku hamborgararnir líti svona út, en Frakkar virðast þó sólgnir í þennan ameríska rétt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrsta skipti í sögunni hefur sala á hamborgurum farið fram úr sölu á hinu klassíska franska baguette með smjöri og skinku, í sjálfu Frakklandi. Hamborgarar voru á matseðlinum á 85 prósent veitingastaða í Frakklandi á síðasta ári og samtals voru um 1,5 milljarður hamborgara seldir, samkvæmt samantekt ráðgjafafyrirtækisins Gira Conseil, sem sérhæfir sig í veitingastöðum. AFP-fréttaveitan greinir frá.

Það sem meira er að aðeins 30 prósent þessara hamborgara voru seldir á skyndibitastöðum. Meirihluti þeirra var því seldur og þeir framreiddir á fínni veitingastöðum. Hamborgarinn er víða reyndar orðinn hálf franskur, enda oft toppaður með frönskum ostum, eins og Roquefort, í staðinn fyrir hinn hefðbundna cheddar ost sem gjarnan er notaður í amerískari útgáfum.

Fréttirnar eru töluvert áfall fyrir þjóð sem er verulega stolt af matarhefðum sínum og leggur mikið upp úr því að kynna erlenda ferðamenn fyrir hefðbundinni franskri matargerð. Lengi framan af stóðst hin franska matargerð áhlaup hinnar amerísku, en sú síðarnefnda verið að sækja í sig veðrið síðustu ár. Reyndar svo hratt og örugglega að Gira Conseil talar um „borgara brjálæði“.

„Við höfum séð þetta borgara brjálæði síðustu þrjú ár. En síðastaliðið ár, ég veit ekki einu sinni hvernig best er að lýsa þessu fyrirbæri. Þetta er algjört brjálæði,“ segir Bernard Boutboul hjá Gira Conseil í samtali við AFP. Sala á hamborgurum jókst um níu prósent á síðasta ári. „Það er ótrúlegur vöxtur,“ segir Boutboul jafnframt.

Árið 2016 var sala á hamborgurum á pari við bagutte með skinku, en á síðasta ári voru um 1,2 milljarður bagette seld, samanborið við 1,5 milljarð hamborgara.

Fréttir af hástökki hamborgarans virðast hafa snert viðkvæma taug hjá frönsku þjóðinni og margir hafa tjáð sig um málið á Twitter. „Hvað er að koma fyrir þetta land?“ spurði einn vonleysislegur Twitter-notandi. „Við endum öll með Mikka mús eyru í einum af þeirra glötuðu skemmtigörðum,“ skrifaði annar og vísar þar til Disneylands í París.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert