Nú er verið að leggja lokahönd á innréttingar og aðstöðu í Mathöll Höfða sem opnar á morgun. Mikil eftirvænting er fyrir opnunina enda margt fólk sem sækir vinnu á svæðinu. mbl.is fékk að kíkja á undirbúninginn en unnendur bjórs, matar og pílukasts fá allir eitthvað fyrir sinn snúð á staðnum. Reyndar snúða líka ef út í það er farið.
Í myndskeiðinu er rætt við Elís Pétur Elísson, bruggara hjá Beljanda frá Breiðdalsvík, en fyrirtækið er nú að færa út kvíarnar eftir að hafa vakið mikla lukku á heimaslóðunum fyrir austan. Þá er rætt við Steingerði Þorgeirsdóttur, annan eiganda Mathallarinnar, hún segir að mikið líf verði í húsnæðinu sem verður opið til miðnættis um helgar og tíu á virkum dögum.