Grísahnakki með munúðarfullu meðlæti

Haraldur Jónasson/Hari

Meistarakokkarnir Baldur Hafsteinn Guðbjörnsson og Gunnar Chan reka staðinn 108 Matur í Fákafeni 9 í Reykjavík. Þar bjóða þeir upp á hágæða heimilismat sem hefur mælst einkar vel fyrir enda skortur á almennilegum heimilismat sem er bæði vandaður og góður – án þess þó að missa sjarmann. Við fengum Baldur til að grilla fyrir okkur þar sem hann er sagður afar flinkur á því sviði og hann brást að sjálfsögðu vel við því. Hér getur að líta uppskrift að grilluðum grísahnakka með munúðarfullu meðlæti sem mun slá í gegn á hvaða matarborði sem er.

Grísahnakki
  • 900 g grísahnakki í heilum bita

Aðferð:

Grísahnakkinn er settur í saltlög í sólarhring (100 g salt móti 1 lítra af vatni blandað vel saman). Hnakkinn er tekinn úr leginum og skolaður. Hann er kryddaður með Five spices og vakúmpakkaður. Svo er hann eldaður í vatnsbaði við 80 gráður í tvo og hálfan tíma. Hann er svo tekinn og skorinn í fallegar steikur. Settur á funheitt grillið til að fá gott grillbragð í hann og svo penslaður með hoisin-grillsósunni.

Hoisin-grillsósa

  • 300 g hoisin
  • 100 g sojasósa
  • 50 g hunang
  • 10 g engifer ferskt, rifið
  • 10 g hvítlaukur ferskur, rifinn
  • 5 g kóríander, malaður
  • 5 g chiliduft
  • 1 sítróna (safinn)

Aðferð:

Öllu blandað saman, gott er að gera þessa sósu deginum áður.

Grillaður maís
  • 4 stk. ferskur maís
  • 4 msk. majónes
  • 1/4 búnt ferskt kóríander
  • 4 msk. parmesan

Aðferð:

Hýðið tekið af og hann grillaður á heitu grilli í um það bil tíu mínútur. Snúið honum reglulega, passið að ofelda hann ekki, það á að vera aðeins bit í honum. Þegar búið er að grilla hann þá er hann penslaður með majónesi og söxuðum kóríander og rifnum parmesan-osti stráð yfir hann.

Grillað hvítkál í appelsínudressingu
  • ½ hvítkál skorið í 1 cm þykkar sneiðar
  • olía
  • salt og pipar
  • appelsínudressing
  • 3 appelsínur
  • 1 dl olífuolía
  • 1 msk. eplaedik
  • 1 msk. hunang
  • 1 msk. saxað estragon
  • salt og pipar

Aðferð:

Blómkálið er penslað með olíu á báðar hliðarnar og kryddað með salti og pipar. Hvítkálið er svo grillað á báðum hliðum, það má gjarnan brenna smá. Þetta tekur nokkrar mínútur, hérna þarf líka að passa að ofelda hvítkálið ekki, það á að vera bit í því. Þegar búið er að grilla hvítkálið er það skorið óreglulega niður í munnbita.

Appelsínudressing:

Appelsínurnar afhýddar og skornar í litla teninga en takið hvíta hlutann og steina í burtu. Olíu, ediki, hunangi og estragoni er blandað saman og hellt yfir appelsínuteningana, þetta er smakkað til með salti og pipar og að endingu er þessu blandað við hvítkálið.

Gott er að hafa með þessu gott sumarkartöflusalat.

Baldur Guðbjörnsson kokkur á 108 Matur.
Baldur Guðbjörnsson kokkur á 108 Matur. Haraldur Jónasson/Hari
Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert