Áfengisneysla dróst saman um 43% í Rússlandi á árabilinu 2003-2016 að því er fram kemur í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).
Eru ástæður samdráttarins sagðar að mestu til komnar vegna aðgerða stjórnvalda til að ná stjórn á áfengisneyslu og tilrauna til að hvetja til heilbrigðari lífstíls.
Segir WHO samdráttinn í áfengisneyslu tengjast bættum lífslíkum Rússa, sem voru áður í hópi þeirra þjóða í heiminum sem neyttu hvað mest áfengis.
„Áfengisneysla hefur lengi verið talin ein af helstu dánarorsökum í Rússlandi, sérstaklega hjá karlmönnum á vinnualdri,“ segir í skýrslunni.
Á tímabilinu frá 2003-2018 hafi hins vegar dregið úr áfengisneyslu og dauðsföllum sömuleiðis og sé breytingin hvað mest í þeim málum þar sem dánarorsökina má rekja til áfengisneyslu.
Náði meðallífaldur Rússa nýjum hæðum í fyrra, þegar hann mældist 68 ár fyrir karla og 78 ár fyrir konur.
Að sögn BBC var það Dmitry Medvedev, fyrrverandi forseti Rússlands, sem í sinni stjórnartíð setti hömlur á áfengisauglýsingar, hækkaði skatta á áfengi og bannaði sölu áfengis á vissum tímum sólarhrings. Bann var einnig lagt við neyslu áfengis á götum úti og segir BBC lögreglu duglega að sekta þá sem gerist sekir um slíkt sem dugi til að flestir virði reglurnar.
Með stækkandi miðstétt hafi heilsuvitund Rússa líka aukist og með því hafi áfengisneyslan tekið breytingum. Í fátækari byggðum þar sem heimabrugg er enn algengt er áfengisneyslan þó enn mikil.