„Opnum í nóvember ef guð og rafverktakar lofa“

Barion í Mosfellsbæ.
Barion í Mosfellsbæ. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum að ráðgera að opna í nóvember ef guð og rafverktakar lofa,“ segir athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson í samtali við blaðamann mbl.is. Vísar hann í máli sínu til opnunar sportbarsins og veitingastaðarins Barions. Að sögn Sigmars hafa gríðarlegar framkvæmdar verið á svæðinu enda ekki einfalt að breyta húsnæði sem þessu.

Í umræddu húsnæðinu var Arion banki áður til húsa og þannig er nafn staðarins tilkomið. „Við þurftum til dæmis að brjóta niður peningageymslur. Veggjaþykktin þar var gríðarleg og það tók sjö manns fimm daga að brjóta niður þá veggi,“ segir Sigmar.

Mun bjóða upp á fjölbreyttan mat

Barion, sem líkt og fyrr segir opnar síðar í mánuðinum, verður allt í senn sportbar, hverfisbar og veitingastaður sem býður upp á fjölbreyttan mat. Að sögn Sigmars eiga allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi á staðnum. Þá segir hann að þegar staðurinn opni muni fólk geta séð að þar hafi banki áður verið til húsa. „Viðskiptavinir munu sjá þykkt veggjanna og við völdum að hafa peningahvelfinguna nokkuð grófa og sýnilega,“ segir Sigmar.

Framkvæmdir eru vel á veg komnar.
Framkvæmdir eru vel á veg komnar. Ljósmynd/Aðsend

Sigmar hefur verið viðloðandi veitingarekstur í talsverðan tíma og er hann nú með nokkur verkefni í bígerð. Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu hyggst Sigmar einnig opna mínígolfveröld í 1.850 fermetra húsnæði við Skútuvog 2. Gengið hefur verið frá leigusamningi við Regin, en ráðgert er að veröldin verði opnuð næsta vor. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert