Krónan hefur virkjað ferla sína í kjölfar samkomubanns yfirvalda. Í tilkynningu frá versluninni kemur fram að á hefðbundnum degi eru sjaldan fleiri en 100 samankomnir í verslunum Krónunnar og í raun fer fjöldinn aðeins yfir 100 í stærri verslunum Krónunnar á álagstímum sem eru á milli klukkan 16 og 19. Því beinir Krónan því til viðskiptavina sinna að sé þess kostur sé gott að koma utan álagstíma í verslun.
Fylgst verður með fjölda viðskiptavina inni í verslun hverju sinni til að tryggja að farið sé eftir öllum ráðleggingum sóttvarnalæknis, landlæknis og almannavarna. Frá og með mánudeginum munu starfsmenn sinna talningu inn og út úr verslunum.
„Við bregðumst að sjálfsögðu við og fylgjum öllum tilmælum. Mikilvægt er að undirstrika að nóg er til af vörum, vöruhús Krónunnar er fullt af vörum og því mun ekki verða neinn vöruskortur hjá okkur. Það er því engin þörf á því að hamstra vörur,“ er haft eftir Hjördísi Elsu Ásgeirsdóttur, markaðsstjóra Krónunnar, í tilkynningu.
Krónan vill árétta að enginn vöruskortur sé fyrirsjáanlegur. Þannig eru 60-70% af vöruframboði Krónunnar íslensk framleiðsla og engin stöðvun er á framleiðslu. Þá hefur Krónunni ekki borist nein flöggun frá erlendum birgjum vegna stöðvunar framleiðslu. Vegna álags á verslunum síðastliðna daga hafa starfsmenn þó ekki náð að fylla á hillur nægjanlega hratt en sendingar berast í hverja búð daglega og fyllt er á fyrir opnun.