Sölu á svörtum ruslapokum hefur nú verið hætt í Krónunni en glærir ruslapokar koma þeirra í stað. Með breytingunni vill Krónan stuðla að aukinni endurvinnslu og efla hringrásarhagkerfið. Frá deginum í dag eiga viðskiptavinir Sorpu að koma með allan úrgang og endurvinnanlegt efni í glærum pokum á endurvinnslustöðvar.
„Með því að hætta að selja svörtu ruslapokana erum við ekki bara að styðja Sorpu í þeirra mikilvægu vegferð heldur erum við jafnframt að einfalda viðskiptavinum okkar lífið. Samtal og samvinna í umhverfisverndarverkefnum er lykillinn að árangri. Við í Krónunni erum heppin að eiga í virku samtali við okkar samstarfsaðila og viðskiptavini og hafa margar af okkar mikilvægustu aðgerðum í umhverfismálum orðið til í kjölfar slíkra samtala,“ er haft eftir Ástu Sigríði Fjeldsted, framkvæmdastjóra Krónunnar, í tilkynningu.
Þar er eftirfarandi haft eftir Jóni Viggó Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Sorpu:
„Staðreyndin er því miður sú að meira en helmingurinn af öllu því sem viðskiptavinir okkar skila í gáminn fyrir blandaðan úrgang á sér endurvinnslufarvegi og endar því í urðun að ósekju. Ákvörðun Krónunnar um að hætta að selja svarta ruslapoka er því mikilvæg og er afgerandi stuðningur við glæru pokana og markmið eigenda SORPU um að hætta að urða endurvinnanlegan úrgang.“