Tekur við rómuðum veitingastað 22 ára

Guðrún Ásla Atladóttir.
Guðrún Ásla Atladóttir. Ljósmynd/Aðsend

„Ég borðaði oft á Café Riis sem krakki og ung­ling­ur en eft­ir að ég fór sjálf að vinna hér fann ég svaka góðu orku sem ég vil gjarn­an viðhalda,“ seg­ir Guðrún Ásla Atla­dótt­ir sem tók við rekstri hins rómaða veit­ingastaðar Café Riis á Hólma­vík um ára­mót­in.

Guðrún tek­ur við staðnum af frænd­fólki sínu, þeim Báru Karls­dótt­ur og Kristjáni Jó­hanns­syni, sem ráku Café Riis frá 2005. Þau gáfu henni bestu meðmæli í kveðju sinni til viðskipta­vina á face­booksíðu staðar­ins enda Hólm­vík­ing­ur „bæði af Bæj­ar- og Pál­sætt“.

At­hygli vek­ur að Guðrún er ekki nema 22 ára og stend­ur ein í stafni rekst­urs­ins þótt hún njóti liðsinn­is fjöl­skyldu sinn­ar. „Ég byrjaði að vinna hjá Báru og Kidda árið 2020. Kiddi og mamma mín eru systkina­börn og svo er ég skyld Báru í gegn­um afa minn. Ég er ættuð héðan en ég er alin upp og hef dval­ist lengi í Skotlandi,“ seg­ir Guðrún.

Hún lagði stund á há­skóla­nám í Skotlandi og út­skrifaðist með BA-gráðu í arkí­tekt­úr. „Ein­mitt þegar far­ald­ur­inn var að bresta á. Planið var að ferðast um Evr­ópu og finna mér vinnu á flottri arki­tekta­stofu en það var ekki mikið verið að ráða á þess­um tíma enda all­ir heima að vinna. Þá hringdi ég í Báru frænku og fékk vinnu um sum­arið 2020 hjá henni. Ég varð bara ást­fang­in af þess­um stað,“ seg­ir Guðrún.

Café Riis.
Café Riis. Ljós­mynd/​Aðsend

Í elsta húsi bæj­ar­ins

Hún seg­ist hafa starfað mikið í þjón­ustu­geir­an­um með námi sínu í Skotlandi, meðal ann­ars við veisl­ur í fínni kant­in­um, svo hún hafi búið að góðri reynslu. „Bára og Kiddi tóku vel á móti mér og kenndu mér vel. Staður­inn var bú­inn að vera til sölu í þrjú ár og ég fór að hugsa um þetta. Svo sann­færði ég mömmu og pabba um að mig langaði að kaupa Café Riis og að ég vildi fara í þenn­an rekst­ur. Þetta er fjöl­skyldu­fjár­fest­ing en ég er samt eig­and­inn.“

Guðrún get­ur þess að Café Riis sé hálf­gerð stofn­un á Hólma­vík. Veit­ingastaður­inn er rek­inn í elsta húsi bæj­ar­ins sem var byggt árið 1897. Húsið var gert upp árið 1995 og því breytt í veit­ingastað.

Eld­ar fyr­ir 100 manns í há­deg­inu á virk­um dög­um

„Mér hef­ur verið tekið mjög vel enda held ég að það hafi verið mik­il­vægt að fá heima­mann­eskju til að viðhalda sög­unni. Maður þekk­ir næst­um alla hér og það hafa all­ir verið mjög glaðir og ánægðir með þetta.“

Hún seg­ir enn frem­ur að auk bæj­ar­búa sé al­gengt að fólk úr Reyk­hóla­sveit og Búðar­dal sæki staðinn. Mik­il­vægt sé að viðhalda styrk sam­fé­lags­ins, og miðstöð eins og veit­ingastaður­inn Café Riis sé í lyk­il­hlut­verki þar. Café Riis hef­ur verið í full­um rekstri á sumr­in en af­greiðslu­tími hef­ur verið tak­markaður á vet­urna. Pítsu­kvöld á föstu­dög­um hafa þó notið mik­illa vin­sælda. Guðrún seg­ir að hún ætli sér ekki að breyta miklu í rekstr­in­um öðru en að upp­færa bók­un­ar­kerfi og auka drykkjar­úr­val.

Guðrún Ásla að störfum.
Guðrún Ásla að störf­um. Ljós­mynd/​Aðsend

„Mat­ur­inn hef­ur alltaf verið æðis­leg­ur. Ég var að vinna í eld­hús­inu í fyrra­sum­ar og þá lærði ég alla þessa klass­ísku rétti sem Bára hef­ur verið að elda. Nú er ég að sjá um mötu­neyti grunn­skól­ans og leik­skól­ans og fyr­ir Hólma­drang og ætla að hafa opið í há­deg­inu fyr­ir al­menn­ing sam­hliða því. Ég er þegar að elda fyr­ir hundrað manns og ætla að bjóða upp á heim­il­is­mat og kaffi á staðnum. Svo er hug­mynd­in að vera með opið þegar það eru leik­ir í fót­bolt­an­um og hand­bolt­an­um. Ég er ung og full af orku svo það er ekk­ert að því að vera stans­laust á vakt­inni,“ seg­ir veit­inga­kon­an. Hún bæt­ir við að rekstr­in­um fylgi Bragg­inn, gamla sam­komu­húsið á Hólma­vík, sem nýst hafi við ætt­ar­mót, tón­leika, brúðkaup og fleira og geti falið í sér ýmsa mögu­leika.

Vin­irn­ir furðu lostn­ir

Guðrún viður­kenn­ir að end­ingu að marg­ir vin­ir henn­ar og kunn­ingj­ar hafi furðað sig á þess­um ráðahag. Hún hafi búið í stór­borg mest­allt sitt líf og ferðast víða en sé nú búin að binda sig niður í smá­bæ. „Sum­ir skilja þetta ekki al­veg. Þeir furða sig á því hvað ég ætli að gera á stað þar sem aðeins búa rúm­lega tvö hundruð manns. Mér finnst þetta bara svo kósí. Pabbi ætl­ar að koma bráðlega og vera með mér og mamma og syst­ir koma um pásk­ana og í sum­ar, þær hafa báðar unnið á staðnum. Þetta verður geggjað.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert