Það er nóg að gera þessi dægrin í þorraundirbúningi og þorravörur streyma nú í verslanir. Þorramaturinn er með besta móti í ár að sögn sérfræðinga og þorrabjórinn lumar á ýmsum spennandi nýjungum.
Alls er 21 þorrabjórstegund skráð í sölu hjá ÁTVR en búist er við fjórum í viðbót. Einnig eru tvær tegundur þorrabrennivíns nú fáanlegar.
Í fyrri úttekt mbl um þorrabjórinn segir meðal annars:
„Stærstu tíðindi þessa sölutímabils eru jafnan hvers konar Surta Borg brugghús sendir frá sér. Að þessu sinni eru Surtarnir fjórir. Surtur nr. 93 er þroskaður á bourbon-tunnum, Surtur nr. 8.15 er 13% og þroskaður á tunnum sem áður geymdu romm úr púðursykri, Surtur nr. 8.16 er 12,2% og þroskaður í brómberjabrandístunnum og sá síðasti er Surtur nr. 8.17 sem er 12,2% að styrkleika og þroskaður í Chartreuse-tunnum.
Að vanda sendir brugghúsið Steðji í Borgarfirði frá sér Hval 2 sem er bruggaður með taðreyktum langreyðar-eistum. Af öðrum sígildum þorrabjór má nefna Þorra Kalda sem verið hefur sá vinsælasti á þessu sölutímabili undanfarin ár og Víking vetraröl. Dokkan á Ísafirði hefur bruggað Þorra Púka og The Brothers Brewery í Vestmannaeyjum hinn bragðmikla 23.01.73 Porter. Þá kemur áhugavert hindberja- og kirsuberjaöl frá Segli 67 á Siglufirði og belgískt öl frá Ölverki sem kallast Sóði.
Einna mest spennandi nýmetið á borðum þetta árið verður samstarfsbrugg Víking brugghúss og Böl brewing. Mætast þar mikil og sterk hefð á Akureyri og nýjar hugmyndir úr Reykjavík. Útkoman er bjórinn Trylltur sem er af gerðinni New Zealand Pils og er 6% að styrkleika.“