Bollurnar sem munu brjóta internetið

Það verður seint tekið af þeim félögum í GK bakaríi …
Það verður seint tekið af þeim félögum í GK bakaríi á Selfossi að þeir eru hressir.

Bollu­dag­ur­inn er hand­an við hornið og þá er kátt á hjalla í bakarí­um lands­ins. GK Bakarí á Sel­fossi er þar eng­in und­an­tekn­ing og þegar blaðamann bar að garði voru þeir Guðmund­ur Helgi og Kjart­an að leggja loka­hönd á bollu­list­ann.

„Við erum allt annað en fast­ir í form­inu,” seg­ir Kjart­an Ásbjörns­son, ann­ar eig­andi GK, og glott­ir við tönn.  „Við tók­um list­ann frá því í fyrra, krumpuðum hann í bolta og tróðum í tunn­una. Einu boll­urn­ar sem halda velli eru sú klass­íska og Feita­boll­an.” 

„Það er nauðsyn­legt að hrista upp í úr­val­inu,” skýt­ur Guðmund­ur Helgi, hinn helm­ing­ur sam­steyp­unn­ar, að.  „Við nýt­um öll tæki­færi til að prufa okk­ur áfram, hvort sem um er að ræða fram­andi hrá­efni eða að reyna að setja göm­ul minni í nýja bún­inga.”

„Einnig leggj­um við mik­inn metnað í að nota hrá­efni úr okk­ar nærum­hverfi. Við erum bún­ir að sulta ein­hver 50 kíló af rabarbara sem fólk af stór-800 svæðinu færði okk­ur síðasta sum­ar, og not­um ís­lenskt smjör, ís­lensk egg og ís­lensk­an rjóma,” seg­ir Kjart­an, en í búðinni hjá þeim má finna fjöl­breytt úr­val af kjötáleggi, pestó, sterk­um sós­um, kon­fekti og árstíðarbundn­um vör­um af stór-800 svæðinu, eins og þeir segja sjálf­ir.

„Flagg­skipið er án efa Feita­boll­an: þeytt­ur vanillu ganache, vanillu cust­ard og væn sneið af núggati vafið inn í nýbakað croiss­ant úr sér­völdu, ít­ölsku, hveiti og ís­lensku smjöri. Hún sló ræki­lega í gegn í fyrra og fólk var að herja á okk­ur langt fram á haust að setja hana í sölu. En jól­in eru bara einu sinni á ári - maður er ekk­ert að opna pakk­ana langt fram í apríl, svo við ætl­um að trylla lýðinn ár­lega og kom­um með hana í borðið í fyrra­málið.” seg­ir Guðmund­ur og á þar við laug­ar­dag­inn 26. fe­brú­ar.

En var ekki hægt að finna betra nafn en „Feita­boll­an”?

„Þetta er bolla, sem er drekk­hlaðin af smjöri og rjóma. Svo það lá bein­ast við..” seg­ir Kjart­an ábúðarfull­ur á svip­inn.

Strák­arn­ir í GK eru dug­leg­ir að stilla sam­an strengj­um með öðrum veit­inga­mönn­um á svæðinu. Fyr­ir síðasta bollu­dag gerðu þeir bjór­bollu í sam­starfi við Smiðjuna Brugg­hús á Vík, en þeir hafa einnig bruggað kanil­snúðabjór með Ölverk í Hvera­gerði og selja blóm­vendi frá Hvera­blóm­um á konu­dag­inn.

„Við sækj­um mik­inn inn­blást­ur í fólkið í kring­um okk­ur. Það opn­ar augu okk­ar fyr­ir öðrum hliðum mat­vælaiðnaðar­ins og þar sem við kjós­um að feta ekki troðnar slóðir í okk­ar vöruþróun þá finnst okk­ur gam­an að skora á sjálfa okk­ur að sækja hrá­efni sem alla jafna finn­ast ekki í bakarí­um og gera eitt­hvað skemmti­legt með þau,” seg­ir Guðmund­ur. „Hann elsk­ar bara að drekka kaffi og kjafta,” skýt­ur Kjart­an inn í og hlær.

„Mika í Reyk­holti gera frá­bært kon­fekt, svo okk­ur datt í hug að heyra í Mikka (Michal Jozefik, eig­anda Mika) og sjá hvort hann væri ekki til í að gera eitt­hvað skemmti­legt.  Hans eft­ir­læt­is moli er fyllt­ur með mangó og ástar­ald­in fyll­ingu og okk­ur datt í hug að reyna að end­ur­gera hann í bollu­formi,” held­ur Guðmund­ur áfram.

„Búbblu­boll­an er til heiðurs allra búbblu un­enda lands­ins!” seg­ir Kjart­an kím­inn.

„Síðustu ár höf­um við verið með bjór-bollu og Irish cof­fee-bollu (í sam­starfi við Eim­verk) sem voru í þyngri kant­in­um, svo í ár fór­um við í fersk­ari strauma. Picc­ini búbblurn­ar hafa létt­an rósatón sem fer ein­stak­lega vel með jarðaberj­um og rjóma.”

Mjólk­ur- og eggja­laus­ir þurfa ekki að ör­vænta því strák­arn­ir eiga alltaf ás í erm­inni. 

„Við erum reglu­lega sátt­ir við veg­an úr­valið hjá okk­ur í ár og við von­um að all­ir geti fundið eitt­hvað við sitt hæfi. Okk­ur finn­ast ger­boll­ur vond­ar, svo við bjóðum upp á croiss­ant-boll­ur með Oatly whip fyr­ir veg­an gesti og gang­andi. Við prufuðum klass­íska rjóma&sultu-, kara­mellu- og Or­eo­boll­ur síðustu helg­ar og þær mæld­ust mjög vel fyr­ir.  Svo spil­um við út tromp­inu á föstu­dag­inn: Mögru Feita­boll­unni; croiss­ant bollu með vanillu og hesli­hnetu­smjöri,” seg­ir Kjart­an og bæt­ir við að hún sé „sann­kölluð tveggja klúta bolla.”

Strák­arn­ir tóku for­skot á sæl­una helgarn­ar fyr­ir Bollu­dag­inn, en lofa að tjalda öllu til dag­ana fyr­ir stór­hátíðina. 

„Það er mikið hlegið og lítið sofið vik­una fyr­ir, en við skell­um í lás á sprengi­dag og sof­um það úr okk­ur. Svo verðum við mætt­ir að taka við grímu­klædd­um söng­fugl­um eldsnemma á ösku­dag!”

Opið er í GK á laug­ar­dög­um frá 08-16, sunnu­dög­um frá 10-14 og virka daga (þ.m.t Bollu­dag­inn 07-17)

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Matur »

Fleira áhugavert