Smurðar samlokur fluttar alla leið frá Litháen

María Jóna segir helstu viðskiptavini vera veitingasala á landsbyggðinni.
María Jóna segir helstu viðskiptavini vera veitingasala á landsbyggðinni.

Smurðar sam­lok­ur sem eru í boði á sölu­stöðum víða um land eru ekki leng­ur all­ar smurðar hér­lend­is, en inn­flutn­ings­fyr­ir­tækið Danól hef­ur síðan í byrj­un árs flutt inn smurðar sam­lok­ur frá Lit­há­en. Sam­lok­urn­ar, sem eru frá merk­inu Food on Foot, koma til lands­ins frosn­ar.

Friðrik Árnason, eigandi Hótel Breiðdalsvíkur, vakti athygli á samlokunum á Facebook-síðu sinni. Hann segist hafa orðið fyrir vonbrigðum að sjá samlokurnar seldar í söluskála á Suðurlandi, meðal annars vegna umhverfissjónarmiða.

Þá brá honum enn frekar þegar hann sá að innflutta samlokan var helmingi ódýrari en samlokan sem er smurð staðnum með sama áleggi. Mbl.is hafði samband við umræddan söluskála en starfsmaður sagði erlendu samlokurnar kosta hið sama og þær íslensku.

María Jóna Samúelsdóttir, framkvæmdastjóri Danól, segir í skriflegu svari til mbl.is að gæði samlokanna séu mikil og viðbrögðin við þeim verið góð.

Neytendur njóti stærðarhagkvæmni

Spurð hvað gæti mögulega valdið því að erlendu samlokurnar séu ódýrari en þær íslensku segir María Jóna:

„Við getum að sjálfsögðu ekki svarað fyrir verðlagningu annarra aðila, en Danól býr að góðu viðskiptasambandi við birgjann, sem að sjálfsögðu er að auki að framleiða fyrir mun stærri markaði en þann íslenska og í því tilfelli njóta neytendur hér á landi stærðarhagkvæmni.“

Viðskiptavinir á landsbyggðinni

Hvernig kemur það til að þið ákveðið að flytja inn samlokur frá Litháen?

„Danól er í góðu viðskiptasambandi við þarlendan birgi sem sérhæfir sig í brauðvörum og sætabrauði og hefur mikið úrval. Gæðin eru mikil og íslenskir veitingasalar hafa leitað eftir lausnum sem þessum, þar sem hagstætt verð, gæði og einfaldleiki í framreiðslu fara saman. Fyrir viðskiptavini okkar felst í þessu að auki mikil tímasparnaður, auk sparnaðar við birgðahald, geymslu og innkaup frá fjölda smærri aðila.“

Seljið þið mikið af svona samlokum og hvert þá helst?

„Við erum ánægð við viðbrögð markaðarins við þessum vörum, en helstu viðskiptavinir eru veitingasalar á landsbyggðinni, oft fjarri byggðakjörnum, sem sjá að hagstætt verð, gæði vöru og einfaldleiki í framreiðslu fara saman.“

Samlokurnar sem um ræðir eru frá litháíska vörumerkinu Food on …
Samlokurnar sem um ræðir eru frá litháíska vörumerkinu Food on Foot. Facebook/Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert