Fyrsta alsjálfvirka matvörubúðin opnaði í dag

Nær er ný verslun í Urriðaholti.
Nær er ný verslun í Urriðaholti. mbl.is/Arnþór

Verslunin Nær á Urriðaholtsstræti 2 opnaði í dag. Öllu jafna er ekkert starfsfólk í versluninni og greitt er með smáforriti í síma.

„Okkur fannst vera kominn tími til að það kæmi inn einhver nýr hérna inn á markaðinn með aðeins öðruvísi sýn. Það sést bersýnilega þegar gengið er inn í búðina. Umgjörðin í versluninni er allt önnur en í mörgum,“segir Þórður Örn Reynisson, framkvæmdastjóri Nær, í samtali við mbl.is.

Nær verslun í Urriðaholti.
Nær verslun í Urriðaholti. mbl.is/Arnþór

„Aðal hugsunin hjá okkur er að við viljum spara fólki sporin og að verslunarferðin taki skemmri tíma. Hér finnur þú allt frá pasta og pestói  niður í gos og nammi, próteinstykki og hnetutopp í stykkjatali og svo má lengi telja. Allar vörur sem þú kaupir dags daglega er til hjá okkur.“

„Fyrir það fyrsta erum við að opna hverfisverslanir og við viljum þjóna hverfum eins mikið og við mögulega getum. Verslunin hjá okkur er í smærri kantinum, en samt með mjög breytt vöruúrval. Hún er með 2000 vörunúmerum eins og staðan er núna.“

Hillur Nær.
Hillur Nær. mbl.is/Arnþór

Lítill verðmunur á stóru verslununum

„Við viljum auðvitað vera eins ódýr og við komumst upp með en við erum lítil á markaði miðað við marga aðra. Við getum auðvitað ekki keppt við verð annarra verslana eins og Bónus og Krónuna. Við reynum eftir fremsta megni að vera með góða verðlagningu fyrir íbúa hverfisins.“

mbl.is/Arnþór

Blaðamaður gerði verðsamanburð á nokkrum algengum vörum hjá Nær, Krónunni og Nettó. Allar búðirnar eiga það sameiginlegt að hægt er að skoða vöruverð á netinu. Vöruverð er heldur hærra hjá Nær en hjá Krónunni og Nettó.

„Hærra vöruverð hjá okkur stafar að miklu leyti að því að við erum með hærra innkaupaverð heldur en aðrar verslanir sem eru talsvert stærri heldur en við. Á móti kemur að það kostar minna að reka búð með litlu sem engu starfsfólki og það endurspeglar þennan litla mun á milli okkar og annarra verslana sem við þekkjum,“ segir Þórður.

Fleiri verslanir á teikniborðinu

„Verðið hjá okkur veltur líka á því hversu móttækilegt hverfið er fyrir versluninni. Við vonumst til þess að Urriðaholtið sé spennt fyrir opnun og miðað við hvernig hefur gengið í dag þá er hverfið mjög spennt fyrir því að matvöruverslun sé komin í hverfið.“

Þórður segir að til standi að opna fleiri verslanir en ekki hefur verið opinberað staðsetning þeirra Nokkrar eru á teikniborðinu.

„Eftir því sem hagkvæmnin verður meiri þá náum við að vinna betur með neytandanum,“ segir Þórður.

mbl.is/Arnþór



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert