Bakkelsi innflutt í stórum stíl

Sigurður Bergsson, formaður Landssambands bakarameistara, furðar sig á því að …
Sigurður Bergsson, formaður Landssambands bakarameistara, furðar sig á því að bakarar kaupi frosið bakkelsi af heildsölum.

Bakkelsi er flutt inn í meira mæli nú en áður. Dæmi eru um að bakarí selji innflutt krossant, vínarbrauð og kleinuhringi, svo fátt eitt sé nefnt.

Innflutningur á bakkelsi nam 4.196 tonnum árið 2021, í samanburði við 3.268 tonn árið áður. Vörurnar eru fluttar inn í meira mæli nú en árið 2013, þegar 2.178 tonn voru flutt inn af sætakexi og smákökum, brauðvörum með sykri og sætuefnum, hvítlauksbrauði, öðrum ósættum brauðvörum og öðru brauði, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Nokkur bakarí selja innflutta kleinuhringi, krossant eða vínarbrauð, þar á meðal Bakarameistarinn, Mosfellsbakarí og Árbæjarbakarí. Aðilar innan greinarinnar segja róðurinn þungan, þar sem samkeppnin við matvöruverslanir, veitingageira og hótelgeira er mikil. Dæmi eru um handverksbakarí á borð við Bernhöftsbakarí, Brauð og co og Bæjarbakarí sem ekki kaupa innflutt bakkelsi.

Krossönt eru gjarnan innflutt.
Krossönt eru gjarnan innflutt. mbl.is/Óttar

Sigurður Már Guðjónsson, formaður Landssambands bakarameistara, furðar sig á því að bakarar kaupi frosið bakkelsi af heildsölum. „Maður varð fyrst var við svona innflutning fyrir aldarsfjórðungi síðan. Þá fóru þessar heildsölur að stórauka vöruúrvalið. Ég hef talað fyrir því að bakarar stofni nýtt innkaupafélag fyrir sig. Mér finnst skrýtið að við séum að kaupa hráefni frá sömu aðilum og eru að flytja inn þessa frosnu vöru,“ segir hann.

Sigurður telur að tollaumhverfi skekki samkeppnisstöðu bakara.

„Getum aldrei keppt við þær vörur“

„Það er til dæmis verið að flytja inn krossant til Íslands frá Frakklandi, með frönsku smjöri. Við megum ekki kaupa þetta sama smjör. Innflutta krossantið er tollfrjálst, með innfluttu smjöri en við megum ekki kaupa innflutt smjör. Það er girt fyrir það með slíkum verndartollum að við getum aldrei keppt við þær vörur,“ segir hann og bætir við að smjörið úti sé forunnið fyrir krossant.

Telurðu að þetta útskýri að einhverju leyti það að menn selji innflutta vöru?

„Það eru margar ástæður fyrir því að verið sé að flytja þetta inn. En það vantar fólk, launakostnaður er hár á Íslandi. Þetta er síðan náttúrlega framleitt í stórum verksmiðjum úti,“ segir hann.

Innflutningur á blöndum og deigi hefur minnkað frá árinu 2016 samkvæmt tölum Hagstofunnar. Flutt voru inn 1.533,8 tonn af blöndum og deigi en árið 2021 nam innflutningurinn 1.261,7 tonnum.

ÍSAM, sem áður hét Íslensk-ameríska félagið, þjónustar flest bakarí og hjúkrunarheimili á landinu með sölu á matvörum og hráefnum, að sögn Ólafs Johnson. Félagið sameinaðist nýverið Ó. Johnson & Kaaber og Sælkeradreifingu. Þá flytur Garri einnig inn bakkelsi í stórum stíl, þar á meðal múffur, kökur, vöfflur og kleinuhringi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert