Gosgerðin Agla heldur áfram að hrista upp í gosdrykkjamarkaðinum hérlendis og hefur nú sent frá sér gosdrykk sem eflaust mun vekja hlýjar minningar margra á miðjum aldri og upp úr. Póló er komið aftur á markað og það í sinni upprunalegu mynd.
„Nú er svo komið að kynslóðir eru að vaxa úr grasi hérlendis sem aldrei hafa bragðað þennan sögufræga drykk. Að hugsa sér, í þessum töluðu orðum er fólk af ýmsum kynjum jafnvel akandi sjálfrennireiðum á götum þessa lands sem hefur aldrei upplifað að stelast í svo mikið sem eitt gler af sprúðlandi fersku Póló! Þetta ber að taka alvarlega og bjóðum við því óreyndum bragðlaukum í sögulegt ferðalag og um leið þeim sem þekkja til að rifja upp gömul kynni við þennan goðsagnakennda drykk,“ segir Sturlaugur Jón Björnsson, gosgerðarmeistari Öglu.
Póló á sér langa sögu hér á landi en hefur ekki sést í hillum landsmanna síðan á síðari hluta síðustu aldar ef frá er skilið stutt niðurlægingartímabil drykkjarins þegar einhver útgáfa hans var seld í tveggja lítra umbúðum í Bónus. Það tímabil stóð stutt.
Talið er að Póló eigi sér næstum hundrað ára sögu á Íslandi. Það var fyrst framleitt af gosdrykkjaverksmiðjunni Heklu sem stofnuð var árið 1925. Á flöskunum var drykkurinn nefndur Kjarnadrykkurinn Polo og mynd af eldfjalli prýddi flöskur hans.
Árið 1927 keypti svo Sanitas, sem stofnað var 1905, Heklu og tók við framleiðslu á Póló. Síðar tók Ölgerðin Egill Skallagrímsson við keflinu og um tíma prýddi Póló-flaska vegg á höfuðstöðvum fyrirtækisins. Flestir muna þó sjálfsagt eftir Póló í 330 ml dós en þannig var drykkurinn seldur undir það síðasta.
Gosgerðarmeistarinn segir það ánægjulegt að færa landsmönnum að nýju þennan vinsæla gosdrykk. „Póló er gosdrykkurinn sem lék sér að bragðlaukum landsmanna fyrir aldamót og þeir sem aldur hafa til þekkja það á bragðinu. Ég tel að þjóðin sé tilbúin fyrir Póló á ný,“ segir hann.
„Póló er drykkur sem margur hefur átt erfitt með að lýsa bragðinu á, þú þarft eiginlega að þekkja það. Ef þú ert hins vegar af þeirri kynslóð sem ekki hefur bragðað Póló, skaltu byrja á að ímynda þér léttgeggjað freyðidiskó þar sem ananas, vatnsmelóna og perubrjóstsykur rúlla um á hjólaskautum og hver einasti sopi er keppnis,“ segir gosgerðarmeistarinn að vel ígrunduðu máli.
Agla gosgerð hefur komið af krafti inn á markaðinn á síðustu misserum. Drykkir á borð við Djöflarót, Jólakóla, Yuzulaði, Hindberjagos, Sítrón og Óransín hafa notið hylli. Þá vakti mikla athygli þegar Agla endurgerði Cream Soda, sem selt var hér á landi á árum áður, og nefndi Kremúlaði. Endurgerð Póló heggur í sama knérunn.
Umbúðirnar á Póló vísa að hluta til þeirra sem áður þekktust undir sama nafni. Útlit gosdrykkjanna sem koma frá Öglu gosgerð er einkennandi og minnir á gömlu góðu gosdrykkina sem er þáttur í vegferðinni samkvæmt gosgerðarmeistaranum.
Ítarlegri umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.