Breska sjarmatröllið Simon Cowell fagnaði 62 ára afmæli á dögunum en hann tók nýverið lífsstílinn í gegn eftir að honum var sagt að hann liti hræðilega út.
Í framhaldinu fór hann til læknis og úrskurðurinn var ekki jákvæður. Læknirinn tjáði honum að hann væri á versta mataræði sem hann hefði séð hjá sjúklingi og hann yrði að gera stórkostlegar breytingar.
Aðspurður sagði læknirinn að það mikilvægasta væri að breyta mataræðinu en Cowell er einnig reykingamaður og drekkur hressilega.
Læknirinn vildi fyrst og fremst breyta mataræðinu og í kjölfarið segir Cowell að allur matur sem hann elskaði væri nú á bannlista. Hann borði engar mjólkurvörur, engan sykur, ekkert brauð, ekkert glúten og ekkert rautt kjöt.
Hann segir að umbreytingin hafi verið auðveldari en hann átti von á en hann hafi áttað sig á því að ef hann gerði ekki breytingar myndi fimm ára sonur hans fljótlega stinga hann af.