Kúmen í stað Stjörnutorgs

Kúmen í Kringlunni opnar innan skamms.
Kúmen í Kringlunni opnar innan skamms. Teikning/Árshlutauppgjör Reita

Nýtt veitinga- og afþreyingarsvæði Kringlunnar hefur fengið nafnið Kúmen, en þar var áður Stjörnutorg.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Reita fasteignafélags.

Vonir standa til að svæðið verði opnað í lok næstu viku. Framkvæmdir hafa staðið yfir í um eitt ár og nemur fjárfesting Reita í verkefninu um einum milljarði króna.

Ævintýraland sem hefur verið rekið í Kringlunni í mörg ár verður hluti af afþreyingarsvæðinu, auk þess sem nýr VIP-bíósalur bætist við Sambíóin í Kringlunni.

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Ljósmynd/Aðsend

Krydd á kringlur

Spurður hvaðan nafnið Kúmen kemur segist Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, ekki kunna þá sögu til fullnustu en að nafnið hafi staðið eftir að lokinni rýni margra aðila. Hann bendir þó á að fyrsti stafurinn, K, er hinn sami og í Kringlunni og að kúmen er krydd sem er notað á kringlur.

Guðjón rifjar upp að fyrsta mathöllin á Íslandi, Kvikk, var staðsett þar sem verslunin Gallerý 17 er núna í Kringlunni. Síðan var Kvikk færð upp þegar Borgarkringlan og Kringlan voru tengdar saman og Stjörnutorg varð til. „Þetta er þriðja kynslóð mathallar sem er að opna núna,“ segir hann.

Gamla sjónvarpshúsið við Laugaveg.
Gamla sjónvarpshúsið við Laugaveg. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gamla sjónvarpshúsið að hluta til rifið

Reitir hafa einnig staðfest framkvæmdaáætlun fyrir Hyatt-hótelið sem verður í gamla sjónvarpshúsinu að Laugavegi 176. Virði verkefnisins, ef gamla húsnæðið er tekið með í reikninginn, er 6,5 milljarðar króna en fjárfesting Reita, eins og fyrirhuguð hönnun hússins er nú, er áætluð rúmlega fimm milljarðar króna.

Ákveðið var að bíða með verkefnið þegar Covid-faraldurinn var að ganga yfir og var húsnæðið í millitíðinni leigt út undir skrifstofur. „Núna erum við búnir að taka úr handbremsu og ætlum að fara í þessa umbreytingu,“ segir Guðjón og nefnir að húsið verði að hluta til rifið. Auk þess verður allt rifið innan úr því þannig að eftir mun standa sá hluti hússins sem verður notaður sem grind.

Samtal við RÚV

Húsið er sögufrægt og segir Guðjón hugmyndir hafa verið uppi um að tengja hótelið á einhvern hátt við þessa sögu. Reitir hafa átt samtal við RÚV um það en niðurstaða er ekki komin í málið.

Guðjón segir Hyatt horfa mikið til Bandaríkjamarkaðar og herbergin séu vönduð og stór. Verða þau að öllum líkindum 169 talsins. „Ég held að þetta verði fallegt hótel á góðum stað. Það skiptir máli að efri hluti Laugavegar er að taka á sig myndarlegan brag,“ segir hann og á við uppbygginguna á Heklureit. „Þetta vinnur allt saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert