Verð á hamborgurum í hæstu hæðum

Hefðbundin hamborgaramáltíð hefur hækkað mikið í verði.
Hefðbundin hamborgaramáltíð hefur hækkað mikið í verði. mbl.is/Hákon Pálsson

Algengt verð fyrir hamborgaramáltíð á veitingastað á höfuðborgarsvæðinu er í kringum þrjú þúsund krónur samkvæmt óformlegri könnun Morgunblaðsins. Dýrasta máltíðin er hjá Hamborgarafabrikkunni af þeim veitingastöðum sem verð var kannað hjá, tæpar 3.500 krónur.

Það getur því kostað fjögurra manna fjölskyldu næstum 14 þúsund krónur að fara út að borða ef allir fá sér ostborgara, franskar og gos með. Þá er ekki horft til þess að fjárfest sé í sósum eða öðru meðlæti og hvað þá að einhver leyfi sér munað á borð við bjór- eða vínglas með matnum.

Kannað var verð hjá tíu veitingastöðum sem sérhæfa sig í hamborgurum og bjóða upp á að gestir geti sest niður og notið matarins. Flestir eru með fulla þjónustu. Sjoppur og staðir sem leggja mesta áherslu á að fólk taki matinn með sér heim voru ekki teknir til greina. Leitast var við að finna einföldustu leiðina að því að fá ostborgara, franskar og kók en útfærslur og stærðir eru gjarnan misjafnar eftir stöðum.

Auk þess er mjög auðvelt að finna mun dýrari hamborgaramáltíðir á umræddum stöðum ef fólk kýs annað en hefðbundinn ostborgara. Þannig kostar máltíð á þeim dýrari oft um og yfir fjögur þúsund krónur ef valinn er sérlega veglegur hamborgari.

Ódýrasta máltíðin af þessum tíu er hjá Dirty Burger & Ribs, rétt ríflega tvö þúsund krónur, en Plan B og Craft Burger Kitchen eru litlu dýrari. Dýrast er eins og áður segir á Fabrikkunni en þar á eftir koma Yuzu, 2 Guys og American Style.

Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka