Veitingamaður svarar Twitter-níði

Myndin af matseðli Deigs sem birtist á Twitter á fimmtudag …
Myndin af matseðli Deigs sem birtist á Twitter á fimmtudag með þeim orðum að nú þyrfti Ásgeir, og þá væntanlega Jónsson seðlabankastjóri, að grípa inn í. Skjáskot/Twitter

„Við byrjuðum með þetta tilboð fátæka mannsins þegar við opnuðum fyrst,“ segir Markús Ingi Guðnason, einn eigenda bakarísins Deigs við Tryggvagötu, um kurr á samfélagsmiðlinum Twitter þegar téð tilboð, kennt við fátæka manninn, kostaði orðið 1.850 krónur nýlega eftir að hafa lengi vel kostað 1.000 krónur og þar á milli 1.200.

Birti Twitter-notandi einn mynd af matseðli Deigs á miðlinum á fimmtudag og ritaði þar við „1850 kr – Ásgeir verður að grípa inní“. Hafa einhverjir tekið þar undir, lýst undrun sinni á hækkuninni og einhver með orðunum „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag...“

„Við héldum því verði um langa hríð,“ heldur Markús áfram og á við þúsund krónurnar upphaflegu, „líka þegar faraldurinn skall á. Þá reyndum við allt hvað af tók til að ná fólki inn og í viðskipti við okkur. Jafnvel á þessum tíma stóð þetta verð ekki undir sér,“ segir hann af faraldurstímabilinu eftirminnilega.

Bjargar sér vel á íslensku

Segir Markús að tólfunum hafi fyrst kastað þegar stríðið í Úkraínu braust út snemma árs í fyrra.

„Síðan þá hefur starfsmannakostnaður hækkað um 32 prósent, stýrivextir hafa rokið upp sem hefur áhrif á okkar vexti og okkar lán. Við vorum sjálfir forvitnir um að sjá þetta svart á hvítu svo við skoðuðum málið aðeins,“ segir veitingamaðurinn sem ólst upp í Bandaríkjunum og talar ensku í þessu viðtali. „Ég get samt alveg bjargað mér á íslensku yfir afgreiðsluborðið en ég legg ekki í einhverjar flóknar samræður á málinu,“ segir hann frá.

Markús Ingi Guðnason segir vinsældir Deigs hafa aukist mjög í …
Markús Ingi Guðnason segir vinsældir Deigs hafa aukist mjög í heimsfaraldrinum og staðurinn þá ráðið til sín fólk auk þess sem bara rjómaostur einn og sér hafi hækkað um 78 prósent í verði í hækkunum síðustu missera. mbl.is/Kristinn Magnússon

Athuganir þeirra eigendanna á verðhækkunum þeim, sem velflest þjóðfélög heims hafa fengið að finna á eigin skinni síðasta árið, kveður Markús hafa leitt í ljós að hráefniskostnaður hafi hækkað um á bilinu 15 til 40 prósent.

„Bara MS [Mjólkursamsalan] hækkaði sínar vörur um 47 prósent að meðaltali. Það er til dæmis mikill rjómaostur í tilboði fátæka mannsins og hann hefur hækkað um 78 prósent síðan við vorum með okkar fyrsta verð,“ segir Markús og vísar enn í þúsundkallinn sem nú er horfinn af matseðlinum.

Hann segir réttinn á bak við tilboðið, smurða beyglu, kleinuhring eða annað sætabrauð og drykk að eigin vali, standa undir sér á núverandi verði, 1.850 krónum. Vinsældir staðarins hafi aukist í veirufaraldrinum, þeir eigendurnir þurft að ráða fleira starfsfólk og sinna sínum viðskiptavinum. „Við þurfum að halda dyrunum hér opnum og þetta kostar bara peninga,“ segir Markús.

Þekkir þá list að láta Deig hefast

Deig gengur að hans sögn vel enda alkunna að vanur bakari þekkir þá list að láta deig hefast án þess að það hefist þó um of og falli saman í ekki neitt.

„Það er í raun mjög kaldhæðnislegt hvað við uxum í faraldrinum en ég held að það sé vegna þess að Íslendingar fóru að kynnast eigin landi betur, uppgötvuðu staðina sem þar voru og fóru að styðja við þá. Annríki okkar jókst og þetta gengur mjög vel. Núna eru mjög margir veitingastaðir í rekstri og ég held að við höfum bara verið heppnir,“ segir hann í hreinskilni.

Hafa gestir á staðnum þá verið að fetta fingur út í hærra verð tilboðsins?

„Einhverjir Frakkar sögðu nú bara við okkur „kominn tími til að þið hækkið verðið!“,“ svarar Markús og hlær. Þá hafi einhverjir fastagestir haft á orði að ef til vill væri þá tímabært að breyta nafni tilboðsins. „Við erum að velta því fyrir okkur núna, en þetta er gamalgróið nafn nú orðið, fólk kemur hérna inn án þess að líta á matseðilinn og pantar tilboð fátæka mannsins. En það getur vel verið að það sé orðið tímabært að breyta nafninu,“ segir Markús Ingi Guðnason að lokum, veitingamaður við Tryggvagötuna og einn eigenda Deigs sem vakti umtal á lýðnetinu fyrir að hækka hjá sér tilboðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka