Grjónagrauturinn frá Mjólkursamsölunni hefur verið töluvert á milli tannanna á fólki undanfarnar vikur. Helsta ástæða þess er sú að grauturinn er sagður vera hlaupkenndari en áður.
Sömu grjónin höfðu verið notuð í grautinn í um 10 ár að sögn Egils Thoroddsen, gæðastjóra hjá MS. Síðan kom upp sú staða að MS missti viðskipti við framleiðanda grjónanna og færði sig yfir til annars. Sá framleiðandi hafi ætlað að selja þeim sömu grjónin en síðar kom í ljós að um önnur grjón væri að ræða. Meiri sterkja er í grjónunum sem nú eru notuð en það veldur því að meiri gelun verður á grautnum.
Grjónagrauturinn var ófáanlegur í tæpar tvær vikur í apríl og sala á framleiðslulotu með best fyrir 17.4 og 24.4 var stoppuð vegna galla á áferð, en grauturinn var alltof þykkur. Uppskriftinni var í kjölfarið breytt og framleiðslutíminn lengdur.
Aðdáendur grjónagrautsins þurfa þó ekki að örvænta því MS á von á eins grjónum og áður voru notuð við framleiðsluna í lok næstu viku. Þangað til hefur framleiðsluferlið verið aðlagað að þeim grjónum sem nú eru til. „Bragðlega séð hefur sá grautur verið metinn alveg í lagi, enda er bragðið mjög gott, en áferðin hefur aðeins breyst,“ að sögn Egils.
Sömu grjón hafa einnig haft áhrif á Hrísmjólkina, þar er gelmyndunin þó ekki vandamál en sterkjan í grjónunum veldur því að erfiðara er að sjóða grjónin alveg í gegn, neytendur þurfa því að tyggja grjónin aðeins meira en venjulega.
Að sögn Egils þykir MS þetta rosalega leitt en unnið er að úrbótum. Tekin hafi verið ákvörðun um að framleiða grautinn áfram til að mæta eftirspurn. Enginn hættulegur galli sé á vörunni, áferðin er bara önnur.