Landsliðskokkurinn með Pop Up á Sauðá

Kristinn Gísli Jónsson ætlar að bjóða upp á sannkallaðan sælkeramatseðil …
Kristinn Gísli Jónsson ætlar að bjóða upp á sannkallaðan sælkeramatseðil á veitingastaðnum Sauðá. Samsett mynd

Eins og fram kemur á vef Veitingageirans verður mikið um dýrðir á Sauðá í Sauðárhlíð á Sauðárkróki dagana 14.–15. júlí næstkomandi. Þá ætlar landsliðskokkurinn Kristinn Gísli Jónsson matreiðslumeistari að heimsækja veitingastaðinn og bjóða upp á glæsilegan sex rétta matseðil þar sem skagfirskt hágæðahráefni verður í forgrunni. Í maí síðastliðnum tóku nýir eigendur við Sauðá, þau feðginin Jón Daníel Jónsson matreiðslumeistari og Sandra Björk Jónsdóttir og Alda Kristinsdóttir. Vert er að geta þess að Jón Daníel er einnig faðir Kristins Gísla.

Í 2. sæti í Kokkur ársins

Kristinn hefur farið á kostum í matargerðinni sem og í ýmsum matreiðslukeppnum hér heima og erlendis. Í ár náði Kristinn til að mynda 2. sæti í keppninni Kokkur ársins. Kristinn hreppti silfur í Norrænu nemakeppninni árið 2017 sem haldin var í Helsinki í Finnlandi í Hótel- og matvælaskólanum þar í landi. Kristinn Gísli lenti í 10. sæti af 23 keppendum í EuroSkills  Evrópukeppni iðn- og verkgreina í Búdapest í Ungverjalandi árið 2018. Kristinn og Hinrik Lárusson sigruðu í alþjóðlegri matreiðslukeppni í Grikklandi árið 2019 og Kristinn var meðlimur íslenska kokkalandsliðsins þegar liðið hreppti 3. sæti á Ólympíuleikum landsliða í matreiðslu sem haldið var í Stuttgart í Þýskalandi árið 2020. Hann hefur starfað við matreiðslu í Noregi, nú síðast á Michelin-veitingastaðnum Speilsalen í Þrándheimi.

Kristinn mun bjóða upp á sannkallaðan sælkeramatseðil á veitingastaðnum Sauðá þar sem hráefnið í nærumhverfinu fær að njóta sín. Matseðillinn verður eftirfarandi:

Skagfirskar rækjur, rabarbari og rós.

Reyktur silungur, soðbrauð, piparrót og sítróna. 

Tómatar frá Laugarmýri, Feykir, graslaukur og pipar.

Þorskur, hvítvín, agúrka og dill.

Lambahryggvöðvi, kartöflur, bláber og smjör.

Þeyttur rjómi, mysa, marengs og ber.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert