Bjúgun versta sem Friðrik Ómar hefur smakkað

Friðrik Ómar Hjörleifsson segist hafa átt í misgóðu sambandi við …
Friðrik Ómar Hjörleifsson segist hafa átt í misgóðu sambandi við mat. mbl.is/​Hari

Friðrik Ómar söngvari og gleðigjafi er næstur í röðinni til að svipta hulunni af matarvenjum sínum og sýna á sér matarhliðina. Matur hefur stundum reynst honum þrautin þyngri. „Ég hef átt í mis góðu sambandi við mat í gegnum tíðina. Samband okkar batnaði til muna þegar ég fór að borða minna,“ segir Friðrik Ómar.

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég fasta á morgnana. Ég fæ mér kaffi, vatn og sóda.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Nei, það er tóm vitleysa. Ef ég borða eitthvað milli mála þá er það nammi. Helst lakkrís eða pipar nammi.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Nei, ég fasta í hádeginu líka nema það sé nammi.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Smjör, ost, kokteilsósu og poppers.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Fiskur, ég hef minnkað kjötátið. Fiskur í álpappír með salti, pipar, ferskum kryddum er lostæti.“

Fer á Hlöllabáta til að gera vel við sig

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Hlöllabáta, það að klikkar ekki. Allir aðrir veitingastaðir klikka gjarnan á elduninni, Hlöllabátar eru alltaf eins. En ég borða bara hálfan.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Nei, ég pæli ekki í því.“

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Það er sennilega bjúgu tímabilið þegar ég bjó einn með pabba á árunum 91-´92. Hann eldaði bara bjúgu. Á þessum tíma vann hann í sjoppu og ég fitnaði rosalega. Þetta var brekka.“

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Bjúgun hans pabba.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Það er pabbi.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Gott rauðvín.“

Ertu góður kokkur?

„Ég veit ekki hvort ég sé góður kokkur en ég get gert góðan mat. Aðalmálið er að elda matinn ekki of mikið.“

„Ég vil bara hvetja fólk til að borða minna en samt klára matinn sinn. Hljómar svolítið ruglingslegt en líklegast er lykillinn að vera með litla diska.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert