Dásamlegt banana- og gulrótarbrauð sem þú verður að prófa

Þetta er dásamlegt banana- og gulrótarbrauð og ólíkt hefðbundnum bananabrauðum.
Þetta er dásamlegt banana- og gulrótarbrauð og ólíkt hefðbundnum bananabrauðum. Ljósmynd/Linda Ben

Þetta bananabrauð er alveg dásamlega gómsæt og fullkomið til að baka nú þegar hefðbundin rútína er farin í gang. Skólarnir eru að hefjast og hversdagsleikinn að taka við á flestum heimilum eftir sumarfrí og þá er ekkert betra en að bjóða upp á eitthvað nýbakað sem léttir lífið.

Linda Ben uppskriftarhöfundur sem heldur úti uppskriftasíðunni Linda Ben á heiðurinn af þessu dásamlega bananabrauði og framsetning er líka svo skemmtileg. „Þetta er ólíkt öðrum bananabrauðum að því leyti að það inniheldur einnig gulrætur sem gera það enn þá mýkra og minnir svolítið á gulrótaköku,“ segir Linda. Brauðið inniheldur engin egg eða mjólkurvörur og er vegan, engu að síður gott fyrir alla. Hægt er að sjá Lindu töfra fram banana- og gulrótarbrauðið á Instagram reikning hennar hér fyrir neðan.

Banana- og gulrótarbrauð

  • 200 g spelt – skipt 50% gróft og 50% fínt (líka hægt að nota hefðbundið hveiti)
  • 2 tsk. kanill
  • 1 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. matarsódi
  • klípa af salti
  • 75 g sykur
  • 1 dl hafrajógúrt með vanillu frá Veru Örnudóttur
  • ½ dl fljótandi kókosolía
  • 3 meðal stórir vel þroskaðir bananar (+1 auka til að setja ofan á brauðið en má sleppa)
  • 125 g rifnar gulrætur

Aðferð:

  1. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C, undir og yfir hita.
  2. Setjið spelt/hveiti, kanil, lyftiduft, matarsóda og salt  í skál, blandið saman.
  3. Setjið sykur, hafrajógúrt, kókosolíu í skál og blandið saman.
  4. Stappið bananana og blandið þeim saman við jógúrtblönduna.
  5. Hellið banana+jógúrtblöndunni út í þurrefnablönduna og blandið saman.
  6. Rífið gulræturnar og setjið ofan í skálina, blandið saman við.
  7. Hellið deiginu í smjörpappírsklætt form sem er 11×25 cm eða sambærilega stórt.
  8. Ef þið viljið þá getiði skorið einn banana þvert og sett ofan á deigið.
  9. Bakið í u.þ.b. 50-55 mínútur eða þar til brauðið er bakað í gegn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert