Afskrifuðu Klapparstíg áður en borgin tók ákvörðun

Rekstur ítalska samlokustaðarins Cibo Amore, sem opnaði í Hamra­borg­ í …
Rekstur ítalska samlokustaðarins Cibo Amore, sem opnaði í Hamra­borg­ í sumar, hefur farið vel af stað og nú horfa eigendur til þess að opna annan stað í miðborginni. Þeir skoðuðu húsnæði við Klapparstíg en afskrifuðu það áður en borgin gaf afsvar um starfsemi veitingastaðar þar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var vissulega eitthvað sem við skoðuðum en aðstæður á Klapparstíg voru ekki kjöraðstæður. Við sendum inn fyrirspurn til skipulagsfulltrúa og svo skoðuðum við rýmið tvisvar. Í kjölfarið ákvað ég að þarna væru ekki kjöraðstæður fyrir okkur en niðurstaðan kom eftir að við vorum búin að blása þetta af.“

Þetta segir Þrá­inn Júlí­s­son, einn af stofn­end­um ítalska sam­lokustaðarins Cibo Amore, sem opnaði í Hamra­borg­ í sumar og horfir til þess að opna annan stað í miðborginni.

Komin með vinnsluhúsnæði úti í bæ

Skipu­lags­full­trúi Reykja­vík­ur tók nei­kvætt í ósk forsvarsmanna Cibo Amore um að heim­ilaður yrði veit­ing­a­rekst­ur í hús­inu við Klapp­ar­stíg 29 þar sem hlut­fall smá­sölu­versl­un­ar á þess­ari götu­hlið Klapp­ar­stígs væri nú þegar und­ir viðmiðum sem horft er til í skilgreiningu miðborgarkjarna, M1a.

Þráinn segir í samtali við mbl.is að þarna á Klapparstíg sé allt mjög þröngt og húsnæðið að hluta niðri í litlum kjallara.

Síðan forsvarsmenn Cibo Amore urðu afhuga húsnæðinu á Klapparstíg hefur ýmislegt gerst og húsnæði sem Þráinn og félagar hafa haft augastað síðan í júlí fyrir vinnsluaðstöðu hefur losnað. Það gefur þeim möguleika á að þrengja stakk sinn í miðborginni. Segir hann um viðurkennda vinnsluaðstöðu að ræða sem hýsti veisluþjónustu sem nú er að stækka við sig og er farin annað.

Léttvín í plastglasi og engir stælar

Þá segir hann að forsvarmenn Cibo Amore séu að líta í kringum sig í 101 eftir litlu og flottu plássi þar sem hægt verði að búa til ítalska stemningu.

„Þannig að ef þú labbar inn þá gleymirðu aðeins slabbinu fyrir utan í smá stund. Fólk er að tala um þetta uppi í Hamraborg að það gleymi sér í smástund. Það er ítölsk tónlist og þó svo við séum „grab and go“ með samlokur þá erum við með sæti og svona. Svo kemur alltaf spurningin hvort við séum ekki með rauðvin eða hvítvín.“

Þráinn segir ekki boðið upp á léttvín eins og er en það standi til bóta.

„Eins og við upplifðum í Róm meira að segja þar kom fólk og keypti rauðvínsglas og fékk það þá bara í plastglasi. Það eru engir stælar í gangi og við erum jafnvel að skoða það eða í einhverjum öðrum ílátum en ekki í vínglösum. Okkur þykir þetta svolítið sexý og skemmtileg pæling.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert