Verður England ný vagga vínræktunar?

Landslag vínræktunar mun breytast umtalsvert á komandi árum ef marka …
Landslag vínræktunar mun breytast umtalsvert á komandi árum ef marka má nýbirta rannsókn. AFP/Georges Gobet

Loftslagsbreytingar gætu með tíð og tíma fært vínræktun nær norðurhveli jarðar. Vínekrur á sögulegum slóðum eins og á Grikklandi, Ítalíu og Frakklandi gætu þurrkast út sökum hækkandi hitastigs og hvikulla rigningartíðar.

Í staðinn gætu myndast kjöraðstæður til vínræktunar í löndum eins og Englandi. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýbirtri grein í vísindatímaritinu Nature Review Earth and Environment.

Gjörbreytt landslag fyrir árið 2100

Í greininni „Climate change is changing the geopraphy of wine,“ eða Loftslagsbreytingar eru að breyta landslagi vínræktunar, segir að vínekrur frá Grikklandi til Kaliforníu gætu þurrkast út fyrir árið 2100. 

„Sumir munu græða á þessu, aðrir munu tapa,“ sagði einn höfundur greinarinnar, Cornelis van Leeuwen, prófessor í vínræktun við Landbúnaðarháskólann í Bordeux í Frakklandi, í samtali við fréttastofu AFP. 

Tekin voru saman gögn um hækkandi hitastig, þurrka á ákveðunum svæðum og plágur og sjúkdóma sem leggjast á jurtir.

Höfundar greinarinnar komust að þeirri niðurstöðu að talsverðar líkur væru á því að ræktun á um 49% til 70% núverandi vínræktunarsvæða gæti ekki staðið undir sér til frambúðar.

Getur ræktað vín nánast hvar sem er í heiminum

Van Leeuwen segir að hægt sé að rækta vín nánast hvar sem er í heiminum, en að í rannsókninni hafi verið litið til ræktunar fínni vína sem geta staðið fjárhagslega undir sjálfum sér, þökk sé náttúrulegu landslagi.

Rannsóknin varpaði einnig ljósi á að um 11% til 25% svæða þar sem stunduð er vínræktun gætu séð jákvæða þróun í afkastagetu með tímanum. Þeirra á meðal eru vínræktunarsvæði á Englandi.

Spánn, Grikkland og Ítalía í mestri hættu

Talið er að um 90% vínakra á láglendi Spánar, Grikklands og Ítalíu séu í hættu á því að þurrkast út fyrir lok aldarinnar. 

Þá er einnig hætta á því að vínræktun í Suður-Kaliforníu muni dragast saman um 50% á komandi árum, en loftslagsbreytingar gætu haft í för með sér kjöraðstæður til ræktunar í norðurhluta Bandaríkjanna. 

Van Leeuwen segir að þó vínekrur Frakklands séu ekki í mestri hættu þá muni vínræktendur í Frakklandi engu að síður þurfa að aðlagast breyttu landslagi, til dæmis með því að velja þrautseigari þrúgur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert