Helgarbaksturinn að hætti Hafdísar Helgu

Hafdís Helga Helgadóttir segir sítrónu og túermerikkökuna minna á sumarið.
Hafdís Helga Helgadóttir segir sítrónu og túermerikkökuna minna á sumarið. Samsett mynd

Hafdís Helga Helgadóttir, þáttastjórnandi Morgunútvarpsins á Rás 2, finnst gott að skella í góða köku þegar hún hefur tíma. Túermerik sítrónukakan sem hún bakar vekur alltaf lukku en kakan er eins og sumar í munni. 

„Ég held ég sé bara ágætlega dugleg að baka. Aldrei neitt flókið samt því ég hef takmarkaða þolinmæði en mér finnst voða notalegt að skella í einfalda uppskrift þegar ég hef tíma. Það er eitthvað svo huggulegt að hafa bakstursilm á heimilinu og geta boðið upp á eitthvað ilvolgt úr ofninum. Það hefur kannski sérstaklega ýtt mér út í að baka sjálf að ég er með glútenóþol og get þannig bakað glútenlausar útgáfur af því sem mig langar mest í,“ segir Hafdís Helga þegar hún er spurð hvort hún sé dugleg að baka. 

Áttu uppáhaldsköku?

„Já, gamla góða perukakan á stóran sess í hjarta mínu fyrir nostalgíusakir þó ég fái hana nánast aldrei lengur. Ég var mikill veislukrakki – elskaði allar fermingarveislur og annað slíkt og perukakan var alltaf best. Hún minnir mig líka á ömmu.“

Af hverju bakaðir þú kökuna sem þú deilir með okkur og hvernig tókst til?

„Þessi dásamlega túrmerik sítrónukaka er svo ljómandi sumarleg og gerir eitthvað undravert fyrir andann. Ég baka hana eiginlega bara á bjartari mánuðum ársins enda heiðgul að innan og sítrónubragðið minnir á sól og sumar. Ég held það sé óhætt að fullyrða að hún geti komið flestum í gott skap. Ég fann uppskriftina í bók sem listakokkurinn mágkona mín, Herborg Árnadóttir, benti mér á. Bókin heitir Nothing fancy eftir Alison Roman og rímar ágætlega við skort minn á þolinmæði fyrir flóknum uppskriftum – mæli með henni.“

Túrmerik sítrónukaka

  • 225 g hveiti (Hafdís Helga notar GF Doves farm self raising white flour.)
  • 2 tsk. lyftiduft
  • 1 tsk. salt
  • 1 tsk. túrmerik (eða eftir smekk)
  • Rifinn sítrónubörkur utan af 2-3 sítrónum
  • 2-3 msk. nýkreistur sítrónusafi
  • 1 dolla 18% sýrður rjómi
  • 3 egg
  • 125 g brætt ósaltað smjör

Aðferð:

  1. Forhitið ofninn við 180 gráður. 
  2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, salti og túrmerik.
  3. Í stærri skál, blandið sykur saman við sítrónubörkinn og (þessi partur er mikilvægur og undarlega gefandi) nuddið saman sykrinum og sítrónuberkinum þar til innihald skálarinnar er orðið gult fer að anga af sítrónulykt.
  4. Þá bætið þið við sýrðum rjóma, eggjum og sítrónusafanum – þeytið vel.
  5. Með sleikju er þurrefnunum hægt og rólega blandað saman við blönduna. Blandað saman án þess að hræra um of. Blandið þá brædda smjörinu rólega við.
  6. Öllu heila klabbinu þá helt ofan í smurt form.+
  7. Kökunni skellt inn í heitan ofninn í ca 50-60 mín. Misjafnt eftir stærð forma og gerð ofna svo gott að stinga í hana hníf og sjá hvort hún sé fullbökuð.

Meðlæti: 

  • Ég ber kökuna alltaf fram með rjóma og helst jarðarberjum. Mér finnst líka gott, en ekki nauðsynlegt að búa til smá glassúr ofan á kökuna. Þá hræri ég saman flórsykri, berki af límónu og límónusafa og helli ofan á kökuna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert