Þá er komið að húsráði vikunnar úr smiðju fyrirliða íslenska kokkalandsliðsins, Ísaks Arons Jóhannssonar. Hann gefur lesendum matarvefsins góð húsráð alla föstudaga sem nýtast vel við matargerðina, baksturinn og þegar grilla skal. Að þessu sinni gefur hann góð ráð varðandi framsetninguna á matnum sem við berum á borð. Hann leggur til að við förum út í náttúruna og nýtum það sem þar er að finna til að skreyta matinn.
„Eitt sinn var mér sagt að maður borði ávallt fyrst með augunum. Þetta hef ég ávallt að leiðarljósi þegar ég er að matreiða og bera hann fram, maturinn þarf að vera girnilegur þ.e.a.s. litríkur og fallegur. Mér finnst tilvalið að fara út í náttúruna og finna jurtir til að skreyta matinn með líkt og íslenska villta blóðbergið. Fjólubláu laufin á blóðberginu er hægt að nota til að skreyta mat eins og lamb, fisk og grænmeti og það gefur líka frábært bragð og fallegan lit,“ segir Ísak.