Áfengisvefverslun í samstarfi við Hagkaup opnuð

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, fagnar opnun vefverslunarinnar.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, fagnar opnun vefverslunarinnar. Samsett mynd

Ný vefverslun með áfengi opnar í dag, veigar.eu, og munu viðskiptavinir geta sótt vörurnar sem þeir versla í Skeifuna þar sem starfsfólk Hagkaups hefur tekið þær til. Þá er einnig hægt að fá vöruna senda víðs vegar um landið.

Þetta kemur fram í tilkynningu Hagkaups en vefverslunin er samstarf Hagar Wine og Hagkaups.

Rafræn auðkenning og Dropp-box

Þegar viðskiptavinir kaupa vörur á vefsíðunni veigar.eu þurfa þeir að auðkenna sig með rafrænum hætti til að staðfesta aldur sinn. Starfsfólk Hagkaups tekur svo til áfengið og kemur því í „Dropp“ box í þjónustuborði verslunarinnar.

Reiknað er með stuttum afhendingartíma ef verslað er á tímanum frá klukkan 12 til 21.

Þá verður einnig hægt að nálgast vörur í Dropp-boxum hringinn í kringum landið en sú afhending er sögð taka lengri tíma. Þarf aftur að auðkenna sig rafrænt þegar sendingin er sótt til að fá vöruna afhenta.

„Við fögnum því að geta loks boðið viðskiptavinum okkar upp á þessa þjónustu. Hagkaup hefur alltaf haft hag viðskiptavina að leiðarljósi og verið í fararbroddi þegar kemur að verslunarfrelsi og nýjungum í verslun. Þessi nýja þjónusta er kærkomin viðbót fyrir þann stækkandi hóp sem sækist eftir auknum þægindum og tímasparnaði og getur núna keypt meira til heimilisins í einni ferð,“ er haft eftir Sigurði Reynaldssyni, framkvæmdastjóra Hagkaups.

Ekki sýnilegt í hillum

Tekið er fram í tilkynningunni að eingöngu sé mögulegt að kaupa áfengi í netversluninni og að áfengi verði ekki sýnilegt í hillum verslana Hagkaups.

„Krafist verður tvöfaldrar auðkenningar með rafrænum skilríkjum til að staðfesta kaup, fyrst við kaup og svo aftur við afhendingu. Auk þess áskilur Hagkaup sér rétt til að fara fram á að viðskiptavinir sýni skilríki þegar vara er sótt á þjónustuborð Hagkaups í Skeifunni - Þetta eru ströngustu skilyrði við áfengiskaup sem tíðkast á Íslandi.“

Þá verður afgreiðslutími netverslunarinnar takmarkaður frá klukkan 12 til 21.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka