Menning
10. desember 2024
Það er víða komið við í þætti dagsins. Sigurður Ægisson, prestur á Siglufirði hefur sent frá sér bókina Ókey. Þar setur hann fram og kannar yfir fimmtíu kenningar um upphaf og sögu þekktasta orðatiltækis í heimi. O.K., ok, eða Ókey. Sigurður ræðir einnig önnur hugðarefni sem hann er að vinna að. Þar má nefna viðtöl við hundrað einstaklinga sem bjuggu og lifðu á Hornströndum og í Jökulfjörðum fyrrihluta síðustu aldar. Þessi viðtöl tók hann þegar hann var prestur í Bolungarvík. Hann ræðir einhyrninginn sem er útbreiddasta þjóðtrúardýr heims. Þar fer Sigurður langt aftur í skýringum sínum og leitar uppi svör. Var einhyrningurinn hinn útdauði Úruxi? Eða eitthvað allt annað? Einhyrningurinn rataði inn í biblíuna á sínum tíma og má sjá þess stað í Guðbrandsbiblíu og víðar.
Sigurður ræðir trúarlíf Siglfirðinga og reynslu sína af óútskýrðum atburðum. Þá berst einnig í tal hræðsla skólastjórnenda við að hleypa börnum í kirkjur á aðventunni, sem breiddist út frá Reykjavík fyrir nokkrum árum. Sigurður titlar sig nörd og hann nýtur sín í þætti dagsins.