Arsenal og Cole kæra tvö dagblöð

Ashley Cole með unnustu sinni, Cheryl Tweedy.
Ashley Cole með unnustu sinni, Cheryl Tweedy. Reuters

Enska knattspyrnufélagið Arsenal og einn leikmanna þess, Ashley Cole, hafa lagt fram kærur á hendur tveimur enskum dagblöðum, News of the World og Sun, fyrir ærumeiðingar, persónulegar árásir og brot á friðhelgi einkalífs í skrifum sínum um tvo ónafngreinda knattspyrnumenn.

Blöðin fjölluðu um leikmennina á opinskáan hátt, meðal annars um meinta kynhneigð þeirra, og þó þeir væru ekki nafngreindir þótti all ljóst við hverja var átt. Í kjölfarið fóru af stað afar líflegar umræður á hinum ýmsu spjallsvæðum á veraldarvefnum.

Cole, sem er trúlofaður þekktri sjónvarpsleikkonu, Cheryl Tweedy, hefur átt erfitt uppdráttar, innan vallar sem utan, undanfarna mánuði. Hann hefur verið frá vegna meiðsla síðan í október þegar hann braut bein í rist, og þegar hann var að komast í gang á dögunum tognaði hann á ökkla í leik með varaliði Arsenal og verður frá í þrjár vikur í viðbót.

Þá átti Cole í málaferlum þegar hann áfrýjaði úrskurði stjórnar úrvalsdeildarinnar sem sektaði hann um 75 þúsund pund, kringum 8 milljónir króna, fyrir að ræða við Chelsea um mögulegan samning án leyfis. Áfrýjuninni var hafnað.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert