Rooney: Ég átti ekki skilið að fá rautt spjald

Félagar Rooneys í enska landsliðinu halda í hann eftir að …
Félagar Rooneys í enska landsliðinu halda í hann eftir að honum var sýnt rauða spjaldið í leiknum gegn Portúgal. Reuters

Wayne Rooney, sóknarmaður enska landsliðsins í knattspyrnu, segir að hann hafi ekki ætlað að stíga á Ricardo Carvalho, varnarmann Portúgals, en Rooney fékk að líta rauða spjaldið í leiknum gegn Portúgal í 8-liða úrslitunum á HM í Þýskalandi á laugardaginn. Rooney sparkaði frá sér eftir að tveir portúgalskir leikmenn sóttu hart að honum og hitti Carvalho á viðkvæman stað. Rooney er ósáttur með hvernig Cristiano Ronaldo, miðvallarleikmaður Portúgals og Manchester United, hegðaði sér í leik þjóðanna á laugardaginn, en þegar dómarinn stöðvaði leikinn eftir viðskipti Rooneys við tvo leikmenn Portúgala tók Ronaldo á mikinn sprett og fór fremstur í flokki portúgölsku leikmannanna við að benda á að Rooney væri brotlegur, og í kjölfarið fékk Rooney að líta rauða spjaldið.

Cristiano Ronaldo kveðst ekki ætla að biðja félaga sinn Wayne Rooney afsökunar á neinu en Ronaldo sagði í dag að hann og Rooney væru sáttir. Rooney sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld og þar kemur fram að hann er ósáttur með framkomu Ronaldo á laugardaginn. „Ég er auðvitað mjög vonsvikinn yfir því að hafa fengið rauða spjaldið á laugardaginn. Ég man vel eftir þessu atviki og ég hef séð það nokkrum sinnum í sjónvarpinu. Ég átti ekki skilið að vera rekinn út af gegn Portúgal. Leikmenn Portúgals voru búnir að brjóta oft á mér rétt áður en ég steig á Ricardo Carvalho. Ég ætlaði ekki að stíga á Carvalho, þetta var óhapp og það er ótrúlegt að dómarinn hafi ákveðið að reka mig út af,“ sagði Wayne Rooney. „Það ríkir engin óvild á milli mín og Ronaldo, en ég er samt vonsvikinn yfir því að hann hafi ákveðið að skipta sér af atvikinu á laugardaginn. Ég verð hinsvegar að muna það að við vorum ekki samherjar í þessum mikilvæga leik.“ Sjá einnig enski.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert