Riise neitaði að syngja og Bellamy trylltist

Bellamy fagnar marki með John Arne Riise.
Bellamy fagnar marki með John Arne Riise. Reuters

Craig Bellamy leikmaður enska úrvalsdeildarliðsins Liverpool er í vondum málum ef marka má frásögn enska dagblaðsins News of the World af atburðum gærdagsins í æfingabúðum félagsins í Portúgal. Í gær bárust fregnir af því að Bellamy hafi lamið norska landsliðsmanninn John Arne Riise með golfkylfu á hótelinu þar sem að liðið dvelur og hafa norskir fjölmiðlar fengið það staðfest hjá umboðsmanni Riise að fréttirnar séu réttar.

Riise neitaði að taka þátt í að syngja á veitingastað þar sem að liðið var að skemmta sér en Bellamy kunni því illa að Norðmaðurinn ætlaði sér að sleppa undan því að syngja fyrir framan félaga sína í karíókí.

Bellamy taldi að Riise hefði gert lítið úr sér fyrir framan félaga þeirra úr liðinu og þegar þeir héldu heim á hótelið trylltist Bellamy og lamdi hann Riise í fæturna með golfkylfu.

Rafael Benítes knattspyrnustjóri Liverpool á að hafa gengið á milli þeirra félaga og er ástandið í herbúðum liðsins eldfimt enda á Liverpool að leika gegn Barcelona í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á miðvikudaginn í Barcelona.

Jan Kvalheim talsmaður Riise segir við norska dagblaðið Verdens Gang að Riise hafi ekki smakkað áfengi á föstudagskvöld er atvikið átti sér stað. Breskir fjölmiðlar greina frá því að forsvarsmenn Liverpool muni senda frá sér fréttatilkynningu vegna málsins í dag, sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert