Dramatískt jafntefli í Newcastle – dýrmætur sigur Forest

Dominic Calvert-Lewin jafnar metin í kvöld.
Dominic Calvert-Lewin jafnar metin í kvöld. AFP/Andy Buchanan

Newcastle United og Everton gerðu jafntefli, 1:1, þegar 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla hófst með tveimur leikjum í kvöld. Nottingham Forest vann þá góðan heimasigur á Fulham, 3:1.

Newcastle er áfram í áttunda sæti, nú með 44 stig. Everton er í 16. sæti með 26 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsæti.

Alexander Isak kom Newcastle í forystu eftir stundarfjórðungs leik. Hann slapp þá inn fyrir vörn Everton eftir sendingu Harvey Barnes, fór illa með varnarmenn Everton og lagði boltann snyrtilega í netið.

Eftir tæplega klukkutíma leik virtist Dan Burn vera að tvöfalda forystu heimamanna þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Isaks. Eftir athugun í VAR var Isak hins vegar dæmdur rangstæður.

Skömmu fyrir leikslok fékk Everton dæmda vítaspyrnu eftir VAR athugun eftir að Paul Dummett greip um Ashley Young og togaði hann niður innan vítateigs.

Dominic Calvert-Lewin steig á vítapunktinn og skoraði tveimur mínútum fyrir leikslok. Martin Dúbravka var með hendur í boltanum en varði skotið í netið.

Mikilvægur sigur í Skírisskógi

Forest fékk Fulham í heimsókn og vann 3:1. Forest er áfram í 17. sæti en nú með 25 stig, þremur stigum fyrir ofan fallsæti.

Forest leiddi með þremur mörkum, 3:0, í hálfleik, þar sem Marco Silva, knattspyrnustjóri gestanna, gerði þrefalda skiptingu í fyrri hálfleik.

Mörk Forest skoruðu Callum Hudson-Odoi, Chris Wood og Morgan Gibbs-White.

Tosin Adarabioyo minnkaði muninn fyrir Fulham í upphafi síðari hálfleiks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert