Alex Ferguson, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Manchester United, kveðst andvígur mögulegum hernaði gegn Írak. Þá hefur söngvarinn George Michael varað við afleiðingum stríðs gegn Írak.
Ferguson, sem hefur um árabil stutt Verkamannaflokkinn með fjárframlögum, mun hafa látið andúð sína á stríði gegn Írak í ljós við Alastair Campbell, sem er vinur Fergusons og yfirmaður upplýsingadeildar hjá Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands.
Þá hefur George Michael, sem hefur barist hart gegn mögulegu stríði Breta og Bandaríkjamanna gegn Írak, varað við afleiðingunum. Hann telur að stríðið muni efla framgang íslamskra bókstafstrúarmanna og veikja NATO og Sameinuðu þjóðirnar, að sögn Daily Mirror. George Michael er einn margra frægra Breta sem hafa lýst yfir andstöðu við stríðsrekstur.
Hann sagði í samtali við BBC að Bretar gerðu sér grein fyrir því að Saddam Hussein, leiðtogi Íraks, væri hættulegur einstaklingur, en stríð gæti engu að síður haft slæmar afleiðingar.