Þá er "hitt" þungarokksblaðið, Metal Hammer, búið að fella sinn dóm yfir nýjustu afurð Mínus, Halldóri Laxness. Ásamt Kerrang! er blaðið talið helsta heimild um hvað í gangi er í heimi harðrar rokktónlistar. Rýnir Metal Hammer gefur plötunni 9 af 10 sem telst frábært en Kerrang! gaf plötunni fullt hús stiga, fimm K. Segir gagnrýnandi Metal Hammer plötuna búa yfir djassaðri uppátækjasemi, rafrænni tilraunastarfsemi. Hann segir þessu fléttað listilega saman við víraða gítara og stór og feit rokkstef, lögin ljómi af fegurð og spennu í senn og það sé eins og þau ætli sér alltaf út af sporinu en það geri þau hins vegar aldrei. Með þessari plötu hafi sveitin stigið risakref fram á við og hún sé frumleg og algerlega einstök, erfitt sé að pinna plötuna niður á einhverja stefnu. Rýnir lýkur svo dóm með því að segja plötuna stórkostlegt verk, hér sé á ferðinni sannkölluð brautryðjendaplata.
Til þessa hefur Halldór Laxness fengið einróma lof gagnrýnenda og hafa NME, Morgunblaðið og The Independent verið á svipuðum nótum og ofangreind blöð.