Breiðholtsskóli bar sigur úr bítum í úrslitaviðureign spurningakeppninnar Nema hvað? 2004, sem haldin var á miðvikudagskvöld í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Lið Breiðholtsskóla atti kappi við lið Laugalækjarskóla, og sigraði með 22 stigum gegn 16 og hlaut að launum farandgripinn Mímisbrunn.
Viðureignin var hörð og voru lið beggja skóla gríðarlega sterk, en hvorugt liðið hefur áður keppt í úrslitum "Nema hvað?".
Alls voru 26 grunnskólar voru skráðir til leiks í "Nema hvað?" í ár og hafa því um níutíu unglingar á aldrinum 13-16 ára lagt á sig ómælda vinnu við undirbúning keppninnar og keppt fyrir hönd sinna skóla. Þetta er í þriðja skiptið sem spurningakeppnin Nema hvað? er haldin og hefur mikil ánægja verið með þessa skemmtilegu nýbreytni jafnt meðal nemenda, foreldra og skóla. Segja aðstandendur hennar að þrátt fyrir að keppnin hafi ekki fengið jafnmikla umfjöllun og Gettu betur, sé þarna um að ræða frábært félagsstarf fyrir skólana sem þrýstir saman fólki og bætir liðsandann.
Óttarr Hrafnkelsson, verkefnastjóri hjá ÍTR, segir keppnina höfða til mjög breiðs hóps. "Það er ljóst að spurningakeppnir eiga almennt miklu fylgi að fagna á Íslandi," segir Óttarr og bætir við að það sé kannski til marks um aukinn hróður keppninnar að Ríkisútvarpið útvarpaði nú í fyrsta sinn einnig undanúrslitakvöldum hennar.
Sigurliði Breiðholtsskóla, þeim Vigni Má Lýðssyni, Ara Gunnari Þorsteinssyni og Hafsteini Birgi Einarssyni var vel fagnað að lokinni keppni, en einnig keppti fyrir hönd skólans Árný Rut Jónsdóttir, sem flutti ræðu og henni til aðstoðar var Vilmar Þór Bjarnason.