Franski popptónlistarmaðurinn Bertrand Cantat var í morgun dæmdur í 8 ára fangelsi fyrir að verða leikkonunni Marie Trintignant að bana en Trintignant lést eftir að þau Cantat lentu í átökum í hótelherbergi í Vilnius, höfuðborg Litháens, á síðasta ári. Cantat var fundinn sekur um manndráp. Saksóknarar höfðu farið fram á að Cantat yrði dæmdur í 9 ára fangelsi en verjendur hans fóru fram á að skjólstæðingur þeirra yrði fundinn sekur um manndráp af gáleysi.
Cantat er fertugur að aldri og söngvari frönsku sveitarinnar Noir Desir, sem hefur verið ein vinsælasta popphljómsveit Frakklands lengi. Hann og Trintignant áttu í ástarsambandi og voru stödd í Litháen sl. sumar þar sem Trintignant lék í sjónvarpsmynd um ævi frönsku skáldkonunnar Colette. Trintignant lést 1. ágúst af völdum bólgu við heila sem hlaust af höfuðhöggi.
Cantat viðurkenndi að hafa slegið Trintignant fjórum sinnum utan undir í átökum þeirra en krufning leiddi í ljós talsverða heilaáverka.
Trintignant var dóttir franska leikarans Jean-Louis Trintignants. Hún átti fjögur börn en þau Cantat áttu engin börn saman.