Clinton: Sambandið við Lewinsky var myrkasti hluti míns innra lífs

Kápa sjálfsævisögu Bills Clintons, sem kemur út í næstu viku.
Kápa sjálfsævisögu Bills Clintons, sem kemur út í næstu viku. AP

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti, segir í væntanlegri sjálfsævisögu sinni að þegar hann játaði loks fyrir konu sinni að hafa átt í kynferðislegu sambandi við Monicu Lewinsky þá hafi hún litið út eins og hann hefði barið hana í magann. Hann þurfti síðan að sofa á bedda einn í herbergi næstu tvo mánuðina.

Í bókinni, sem heitir Líf mitt, segir Clinton að samband hans við Lewinsky hafi verið „myrkasti hluti míns innra lífs.” Bókin kemur út á þriðjudag og er fyrsta prentun 1,5 milljónir eintaka. Útgefandi er Alfred A. Knopf.

Clinton segir í bókinni, að hann hafi loks játað fyrir Hillary konu sinni og Chelsea dóttur þeirra, hvers eðlis samband hans við Lewinsky var, en áður hafði hann ítrekað neitaði því opinberlega að þau hefðu átt í kynferðislegu sambandi. Segir Clinton að þetta hafi greinilega fengið mikið á Hillary og þau hafi farið til hjónabandsráðgjafa einu sinni í viku í um ár á eftir.

Hillary sagði í ævisögu sinni, sem kom út á síðasta ári, að hún hefði helst viljað „snúa Bill úr hálsliðnum” eftir hún komst að hinu sanna og í nokkurn tíma á eftir hefði hundurinn Buddy verið sá eini í fjölskyldunni sem vildi umgangast forsetann.

Í bókinni segir Clinton einnig m.a., að hann hafi hitt George W. Bush þegar hann var nýkjörinn forseti og sagt honum að helsta ógnin við öryggi Bandaríkjanna væri Osama bin Laden og al-Qaeda. Clinton segir að Bush hafi gefið lítið út á það og síðan skipt um umræðuefni.

Clinton, sem er 57 ára, er sagður hafa fengið 10 milljónir dala, um 700 milljónir króna, í fyrirframgreiðslu fyrir bókina. Hún er 957 síður og Clinton handskrifaði handritið sjálfur en hann naut aðstoðar Robert Gottlieb við frágang. Gottlieb hefur m.a. unnið með Robert Caro, ævisöguritara Lyndons B. Johnsons, fyrrum Bandaríkjaforseta. Mikill áhugi er á bókinni og hefur hún verið efst á sölulista netsölunnar Amazon.com undanfarinn mánuð.

Clinton segir, að hann hafi gert sér grein fyrir því að uppeldi hans hafi orðið honum að mörgu leyti fjötur um fót og haft áhrif á skapferli hans. Stundum geri sjálfseyðingarhvöt vart við sig þegar hann sé þreyttur, reiður eða einmana. Faðir Clintons lest í bílslysi skömmu eftir að Bill fæddist og stjúpfaðir hans var áfengissjúklingur sem misþyrmdi móður Clintons og Roger, hálfbróður hans. Clinton segist hafa skammast sín fyrir ástandið á heimili hans og það hafi orðið til þess að hann fer oft dult með tilfinningar sínar.

Clinton segir að þegar repúblikanar ákærðu hann til embættismissisins árið 1998 hafi þeir ekki verið að refsa honum fyrir óheiðarleika eða ósiðlega hegðun. Hann segist telja að ástæðan hafi verið valdabarátta og vegna þess að pólitísk markmið hans væru önnur en þeirra.

Hann segist hafa staðist álagið sem þessu fylgdi og getað einbeitt sér að starfi sínu vegna þess stuðnings, sem starfslið Hvíta hússins og ríkisstjórn hans veittu honum, jafnvel einstaklingar sem töldu að Clinton hefði brugðist þeim. Það sama hefðu margir þjóðarleiðtogar gert sem og vinir hans og ókunnugir.

Hann segir að þessi reynsla hafi haft þau áhrif á endanum að styrkja samband hans og Hillary. Þegar málaferlunum í Bandaríkjaþingi lauk fékk Clinton að flytja í hjónarúmið á ný.

Clinton sagði í viðtali við 60 mínútur, sem sýnt verður á CBS sjónvarpsstöðinni um helgina, að hann hafi gert sig sekan um hræðileg siðferðileg mistök þegar hann hóf sambandið við Lewinsky. „Ég gerði það af verstu ástæðunni sem til er: Vegna þess að ég gat það,” sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert