Bandaríski leikarinn, Christopher Reeve, sem er best þekktur fyrir leik sinn sem ofurhetjan Superman, er látinn af völdum hjartabilunar, að því er talsmaður leikarans skýrði frá í dag. Reeve lamaðist fyrir neðan háls fyrir níu árum, en þá datt hann af hestbaki og hálsbrotnaði. Reeve var 52 ára gamall.
Hann lést á í gærkvöldi á sjúkrahúsi í í New-York ríki eftir að hafa fengið hjartaáfall og misst meðvitund á laugardag. Verið var að meðhöndla Reeve við innvortis sári, sem hann hafði hlotið vegna lömunarinnar og hafði ígerð komist í sárið.
Reeve gat ekki andað hjálparlaust eftir slysið og var því stöðugt í öndunarvél. Hann beitti sér mjög í málefnum mænuskaðaðra og lagði fé til rannsókna á tauga- og heilasjúkdómum. Eftir að hann lamaðist hélt hann áfram að leika og hann leikstýrði einnig kvikmyndum og sjónvarpsmyndum.