Skosku háfjallarokkararnir í hljómsveitinni Franz Ferdinand munu leggja til tónlist fyrir næstu Harry Potter-mynd, „Harry Potter and the Goblet of Fire“ og munu einnig koma fram í myndinni. Þar verða þeir í hlutverki rokksveitarinnar Wyrd Sisters, sem spilar á jólaballi Hogwarts-skóla.
Söngvari sveitarinnar, Alex Kapranos, segir að hún hafi verið beðin um að semja tónlist fyrir myndina. „Svo er atriði í myndinni þar sem hljómsveit spilar, skipuð ljótum systrum, og það gæti vel verið að einhverjir meðlimir Franz Ferdinand leiki ljótar systur,“ segir hann.
Alex segist vera mikill aðdáandi Potter-myndanna. „Ákveðið sakleysi og spenna einkenna þessar myndir. Það er skemmtilegt hvernig gott og illt takast á og það er upplífgandi hversu skörp skil eru þar á milli.“